Enski boltinn

Paul Pogba mátti þola kynþáttaníð á netinu eftir vítaklúðrið í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba trúði því varla að hann hefði klikkað á vítinu.
Paul Pogba trúði því varla að hann hefði klikkað á vítinu. Getty/Matthew Ashton
Paul Pogba heimtaði að fá að taka víti Manchester United í gærkvöldi en í stað þess að verða hetjan varð hann skúrkur. Súrir stuðningsmenn United urðu sér til skammar á netinu strax eftir leik.

Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, varð í gærkvöldi þriðji leikmaðurinn í enska boltanum á einni viku sem þurfti að sitja undir kynþáttarníði á samskiptamiðlum. Breska ríkisútvarpið segir frá.

Pogba klikkaði á vítaspyrnu sem hefði fært liði Manchester United sigurinn og þar með áfram fullt hús stiga í ensku úrvalsdeildinni. Hann lét verja frá sér og leikur Wolves og Manchester United endaði með 1-1 jafntefli.

Pogba bættist þar með í hóp Reading leikmannsins Yakou Meite og Chelsea mannsins Tammy Abraham sem klikkuðu líka á vítaspyrnum í sínum leikjum þar af Abraham í vítaspyrnukeppni á móti Liverpool í leiknum um Ofurbikar UEFA. Þeir voru báðir fórnarlamb kynþáttarníðs eftir síns leiki.

Það er mikil vitundarvakning í Bretlandi í baráttunni gegn kynþáttarníði enda hafa rannsóknir sýnt að hún er að aukast aftur sem er mjög slæm þróun.





Paul Pogba lá þarna vel við höggi hjá súrum stuðningsmönnum sem urðu uppvísir af því að setja inn skammarlegar færslur á Twitter.

Aðrir stuðningsmenn Manchester United voru fljótir að koma Paul Pogba til varnar og fordæmdu umræddar Twitter-færslur sem innihéldu kynþáttaníð.

Nokkrir af kynþáttahöturunum höfðu eytt færslum sínum seinna um kvöldið og aðrir reikningar voru horfnir í heilu lagi. Twitter hefur harðar reglur gagnvart þeim sem reyna að koma höggi á aðra með hatursfullri hegðun á samskiptamiðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×