Erlent

Starfs­maður bresku ræðis­manns­skrif­stofunnar í Hong Kong í haldi Kín­verja

Eiður Þór Árnason skrifar
Handtaka Cheng á sér stað á sama tíma og hrina fjöldamótmæla fer fram í Hong Kong. Ferðamenn hafa greint frá því að öryggisgæsla á landamærum Hong Kong og Kína hafi aukist eftir að mótmælin hófust.
Handtaka Cheng á sér stað á sama tíma og hrina fjöldamótmæla fer fram í Hong Kong. Ferðamenn hafa greint frá því að öryggisgæsla á landamærum Hong Kong og Kína hafi aukist eftir að mótmælin hófust. Getty/Chris McGrath

Utanríkisráðuneyti Kína staðfesti í dag að Simon Cheng, starfsmaður bresku ræðismannsskrifstofunnar í Hong Kong, sé í haldi kínverskra yfirvalda á meginlandinu.

Ekkert hafði spurst til Cheng í tæpar tvær vikur. Geng Shuang, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, greindi frá því að Cheng hafi verið settur í fimmtán daga varðhald.

„Ég vil hafa það alveg á hreinu að þessi starfsmaður er ríkisborgari í Hong Kong og ekki breskur ríkisborgari. Þar með er hann kínverskur og einungis er um að ræða kínverskt innanríkismál,“ sagði talsmaðurinn fyrr í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá kínverskum yfirvöldum var Cheng handtekinn af lögreglu í Shenzhen á meginlandi Kína fyrir brot á víðtækri smáglæpalöggjöf. Sú löggjöf er gjarnan notuð til þess að gera lögreglu kleift að rannsaka grunaða einstaklinga áður en ákvörðun er tekin um ákæru.

Annie Li, kærasta Cheng, hefur greint frá því að Cheng hafi sent henni skilaboð rétt áður en hann fór yfir landamæri Kína yfir til Hong Kong. Hún hefur ekkert heyrt frá honum eftir það.

Í yfirlýsingu frá talsmanni breska ræðismannsins í Hong Kong kom fram að skrifstofan þyrfti að skoða málið frekar áður en ákvörðun yrði tekin um viðbrögð við aðgerðum kínverskra yfirvalda. Breski ræðismannsskrifstofan sagði einnig að fregnir af handtökunni væru „gífurlegt áhyggjuefni.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.