Íslenski boltinn

Arnar: Þetta var eins og að landa stórum laxi, maður má ekki hætta

Axel Örn Sæmundsson skrifar
Arnar í rigningunni í kvöld.
Arnar í rigningunni í kvöld. vísir/bára

„Mér líður mjög vel. Þetta var erfiður leikur fyrir okkur og sigurinn frábær. Við sýndum þroska og karakter og vorum þolinmóðir,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir sigurinn á Grindavík, 1-0, í kvöld.

„Já maður var alltaf að vona að markið kæmi fyrr til þess að brjóta leikinn upp, Grindavík lágu til baka og við stjórnuðum leiknum frá A-Ö en það vantaði alltaf smá herslumun.“

Víkingar voru mun betri í fyrri hálfleik og var því fróðlegt að heyra hvað Arnar sagði við sína menn í hálfleik.

„Bara halda áfram, reyna að þreyta þá. Þetta var eins og að landa stórum laxi, maður má ekki hætta. Við fengum ferskar lappir inn þegar menn voru orðnir þreyttir.“

Veðrið spilaði stóran þátt í leiknum í dag. Það rigndi gríðarlega mikið og í þokkabót var töluverður vindur líka.

„Það var örugglega kósý að sitja heima í stofu og horfa á leikinn en þetta tekur á fyrir menn að spila í svona aðstæðum þannig ég er gríðarlega stoltur af þeim í kvöld,“ sagði Arnar.

Sigurinn í dag ýtir Víkingum aðeins frá Grindavík í töflunni. Víkingar fara núna upp í 8. sæti með 22 stig á meðan að Grindavík er ennþá í 11. sæti með 18.

„Við ætlum að spila af krafti og þetta gefur okkur smá andrými og núna er aðalmálið að taka HK til að vera í góðu hugarástandi fyrir bikarúrslitaleikinn sem er helgina eftir.“

Það styttist í bikarúrslitaleikinn hjá Víkingum og menn væntanlega aðeins farnir að horfa í að spila hann. Spurning hvort að sá leikur taki einbeitingu frá deildarleikjum Víkings.

„Já, ég held að menn vilji sanna sig og sýna, menn vilja spila þann leik. Það má ekki gleyma því að deildin er ennþá eftir, þetta er fyrsti úrslitaleikurinn í 50 ár en við megum ekki gleyma okkur í deildinni.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.