Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - Grindavík 1-0 | Ágúst tryggði Víkingum nauðsynlegan sigur

Axel Örn Sæmundsson skrifar
Víkingar fagna eftir leik.
Víkingar fagna eftir leik. vísir/bára
Víkingur R. vann gríðarlega mikilvægan sigur á Grindavík, 1-0, í Pepsi Max-deild karla í kvöld.Fyrir leik voru liðin í 10. og 11.sæti Pepsi Max deildarinnar. Víkingar með 19 stig en Grindavík með 18 stig. Það var því mikið í húfi fyrir bæði lið sem voru að berjast fyrir lífi sínu í deild þeirra bestu. Það var hellirigning í Fossvoginum og nokkuð hvasst og veðrið setti spilaði stórt hlutverk í leiknum.Víkingarnir fóru frábærlega af stað í leiknum í dag og voru að ná að skapa sér nokkur marktækifæri snemma leiks. Grindvíkingar virtust ekki tilbúnir að mæta heimamönnum. Víkingar voru duglegir að keyra upp miðjuna hjá Grindavík og voru alltaf að búa til yfirtölu þar og komast í hættulega sóknarmöguleika. Það var lítið marktækt sem gerðist í fyrri hálfleiknum en þó var hreint magnað að Víkingar voru ekki yfir.Vladan Djogatovic markvörður Grindvíkinga var stórkostlegur í fyrri hálfleiknum og hélt gestunum gjörsamlega á floti. Vladan átti tvær stórkostlegar vörslur og nokkrar svokallaðar skylduvörslur. Gestirnir úr Grindavík voru tilbúnir að leggja allt í þetta og verjast fram til síðustu spyrnu leiksins.Það var svipað uppá teningnum í seinni hálfleik en Víkingarnir stjórnuðu traffíkinni algjörlega og voru mikið meira með boltann og voru að skapa sér færi.Það var ekki fyrr en á 80.mínútu leiksins sem Víkingarnir náðu að brjóta ísinn eftir flott mark frá Ágústi Eðvaldi Hlynssyni. Grindvíkingar reyndu að blása til sóknar eftir það en tíminn of naumur og ekki nægileg orka í gestunum til þess að skapa sér neitt bitastætt.Af hverju vann Víkingur?

Víkingar voru betri frá fyrstu mínútu. Sköpuðu sér mikið fleiri færi og voru að halda vel í boltann. Óheppnir að vinna ekki stærra þar sem Vladan markvörður Grindavíkur var í miklu stuði í kvöld.Hverjir stóðu uppúr?

Vladan Djogatovic var stórkostlegur í dag hjá Grindavík. Gat ekkert í þessu marki gert og var að verja eins og berserkur. Tók nokkrar stórar vörslur í fyrri hálfleik og hélt Grindavík algjörlega á flotiHvað gekk illa?

Það gekk aðallega illa hjá Víkingum að klára þessa sénsa sem þeir voru að fá. Það gekk þó hrikalega illa hjá Grindavík að skapa sér færi í leiknum. Þórður Ingason hafði voða lítið að gera í leiknum. Það er ekki að ástæðulausu að Grindvíkingar séu bara búnir að skora 14 mörk í sumar.Hvað gerist næst?

Grindavík tekur á móti KA í Grindavík í gríðarlega þýðingamiklum leik hjá þeim. Víkingar fara í heimsókn í Kórinn og taka á móti HK.

Arnar kuldalegur á hliðarlínunni.vísir/bára
Arnar: Örugglega kósý að sitja heima í stofu

„Mér líður mjög vel. Þetta var erfiður leikur fyrir okkur og sigurinn frábær. Við sýndum þroska og karakter og vorum þolinmóðir,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir sigur á Grindavík í dag.„Já maður var alltaf að vona að markið kæmi fyrr til þess að brjóta leikinn upp, Grindavík lágu til baka og við stjórnuðum leiknum frá A-Ö en það vantaði alltaf smá herslumun.“Víkingar voru mun betri í fyrri hálfleik og var því fróðlegt að heyra hvað Arnar sagði við sína menn í hálfleik.„Bara halda áfram, reyna að þreyta þá. Þetta var eins og að landa stórum laxi, maður má ekki hætta. Við fengum ferskar lappir inn þegar menn voru orðnir þreyttir.“Veðrið spilaði stóran þátt í leiknum í dag. Það rigndi gríðarlega mikið og í þokkabót var töluverður vindur líka.„Það var örugglega kósý að sitja heima í stofu og horfa á leikinn en þetta tekur á fyrir menn að spila í svona aðstæðum þannig ég er gríðarlega stoltur af þeim í kvöld,“ sagði Arnar.Sigurinn í dag ýtir Víkingum aðeins frá Grindavík í töflunni. Víkingar fara núna upp í 8. sæti með 22 stig á meðan að Grindavík er ennþá í 11. sæti með 18.„Við ætlum að spila af krafti og þetta gefur okkur smá „breathing space“ og núna er aðalmálið að taka HK til að vera í góðu hugarástandi fyrir bikarúrslitaleikinn sem er helgina eftir.“Það styttist í bikarúrslitaleikinn hjá Víkingum og menn væntanlega aðeins farnir að horfa í að spila hann. Spurning hvort að sá leikur taki einbeitingu frá deildarleikjum Víkings.„Já, ég held að menn vilji sanna sig og sýna, menn vilja spila þann leik. Það má ekki gleyma því að deildin er ennþá eftir, þetta er fyrsti úrslitaleikurinn í 50 ár en við megum ekki gleyma okkur í deildinni.“

Túfa í bleytunni í kvöld.vísir/bára
Túfa: Það er bara næsti leikur gegn KA

„Mjög svekkjandi, ég held að við höfum gefið allt sem við gátum í þennan leik,“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari Grindvíkinga, eftir tap gegn Víkingum í kvöld.Eins og áður hefur komið fram voru Grindvíkingar að elta allan leikinn og ná ekki að skapa mörg færi en það lifnaði þó aðeins yfir þeim í seinni hálfleiknum.„Mér fannst leikurinn farinn að opnast síðustu 20 mínúturnar en svo kemur markið í andlitið á okkur og það var þungt högg“Vladan Djogatovic var frábær í marki Grindavíkur og hélt sínum mönnum á floti í dag. Túfa var ánægður með frammistöðu hans sem og hinna leikmanna liðsins.„Ég er ánægður með frammistöðuna hjá mínu liði í dag eins og í allt sumar. Víkingarnir voru betri í fyrri hálfleiknum en mér fannst betra jafnvægi í seinni hálfleiknum og akkurat þegar við erum að komast í tækifæri til þess að vinna leikinn þá kemur mark í andlitið á okkur sem á endanum vinnur leikinn fyrir þá.“Grindavík spilar annan hörkuleik um næstu helgi þegar KA kemur í heimsókn og það er skýrt hvað þeir ætla sér að gera í þeim leik en það er ekkert annað en sigur í boði.„Það er bara næsti leikur gegn KA sem er enn og aftur úrslitaleikur eins og þessi í dag og við verðum bara að gíra okkur vel í þennan leik og gefa allt sem við eigum í þetta.“

Kári lék allan leikinn á miðjunni hjá Víkingi.vísir/bára
Kári: Höfum ekki tapað á heimavelli ennþá

„Við vorum búnir að fara yfir þetta og mér leið bara vel með þetta“, sagði Kári Árnason hlæjandi þegar hann var spurður hvort hann hefði þekkt alla andstæðinga sína á vellinum í dag.Víkingar voru mikið sterkari aðilinn í leiknum í dag og voru að ná að halda vel í boltann og láta hann rúlla.„Við stjórnuðum spilinu en sköpuðum ekki nóg af opnum færum í fyrri hálfleik, við vissum að þetta yrði þolinmæðisverk þannig að við lögðum mikla áherslu á að brjóta ekki á þeim fyrir utan teig og fá eins fá horn á okkur og við gætum.“Sigurinn í dag þýðir það að Víkingar eru komnir upp í 8.sæti deildarinnar og fjarlægjast fallbaráttuna aðeins og ýta Grindavík lengra frá sér. Stigin voru því gríðarlega dýrmæt fyrir heimamenn í dag.„Þetta voru það, við höfum ekki tapað á heimavelli ennþá sem er mjög gott. Við vorum slakir á móti KR og ætluðum að bæta upp fyrir það.“Næsti leikur Víkinga er gegn HK sunnudaginn næsta. Þar er annar leikur sem þeir þurfa helst að ná í stig fyrir áður en þeir halda í bikarúrslitin.„Við erum með okkar leið að spila fótbolta en við breytum ýmsu á milli leikja eftir því við hvern við erum að spila,“ sagði Kári að lokum.

Gunnar með markaskorarann Ágúst Eðvald á hælunum.vísir/bára
Gunnar: Þarf ekkert að fara eins og köttur í kringum heitan graut með það

„Ég er rosalega svekktur. Við lögðum okkur gjörsamlega alla í þetta, fleygðum okkur fyrir öll skot og hlupum úr okkur lungun en það dugði ekki til,“ sagði Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindvíkinga, eftir tap gegn Víkingum í kvöld.Varnarleikur Grindavíkur í kvöld var mjög góður og stefndi allt í það að þeir myndu halda markinu hreinu og ná í lágmark eitt stig úr leiknum í kvöld.„Það kemur alltaf fyrir að maður geti fengið á sig svona mörk. Varnarleikurinn var sterkur eins og fyrir hefur verið en við sköpum okkur rosalega fá færi, í fljótu bragði man ég eftir einu færi sem við sköpuðum okkur. Þegar þú ert búinn að skora 14 mörk eftir 18 leiki þá segir sig sjálft að róðurinn er þungur,“ sagði Gunnar.Næsti leikur Grindavíkur er gegn KA og er það leikur sem Grindvíkingar verða að vinna ef þeir ætla ekki að missa þessi lið of langt frá sér í fallbaráttunni.„Það þarf ekkert að fara eins og köttur í kringum heitan graut með það, nú erum við búnir að missa Víkingana fjórum stigum fram úr okkur og KA þremur. Það er bara svoleiðis að ef við ætlum að vera í deildinni á næsta ári þá verðum við að vinna þennan leik.“

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.