Erlent

Opin­berir starfs­menn segja yfir­völd hafa vitað af í­kveikju­á­ætlunum í Amazon

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Slökkviliðsmaður slekkur elda við veg sem liggur inn í Amazonskóginn.
Slökkviliðsmaður slekkur elda við veg sem liggur inn í Amazonskóginn. AP/Eraldo Peres
Brasilískum yfirvöldum barst viðvörun frá opinberum starfsmönnum sem starfa við umhverfismál um að bændur og aðrir sem ásældust land í Amazon regnskóginum hefðu skipulagt að kveikja skógarelda á þann 10. ágúst. Þetta segja starfsmennirnir sem segjast hafa sent viðvörunina.

Ríkissaksóknari í Pará ríki, sem er að stórum hluta þakið skóglendi, hóf í dag rannsókn eftir að opinberað var að embættið hafi varað Umhverfisstofnun Brasilíu, Ibama, við áætlunum bænda um að kveikja eldana.

Þá leggur embættið áherslu á það að fréttastofan Folha do Progresso hafi greint frá íkveikjuáætlunum þann 5. ágúst. Bóndi á svæðinu sagði í samtali við fréttastofuna að sýna þyrfti forsetanum, Jair Bolsonaro, að bændur vildu vinna og hann bætti við að eina leiðin til að ryðja land væri með því að fella tré eða brenna þau. Skógareldarnir hafi því verið kveiktir í mótmælaskyni.

Ibama hafi ekki brugðist við viðvörunum fyrr en tveimur dögum eftir að mótmælin, skógarbrunarnir, hófust. Ibama heldur því fram að aðgerðir þeirra hafi tafist vegna þess að stofnunin hlyti ekki stuðning lögreglu á svæðinu.

Önnur rannsókn er hafin á skógeyðingu á almenningslandi í Pará og verður rannsakað hvort opinberar stofnanir og yfirvöld beri ábyrgð á skógeyðingu.

Sergio Moro, dómsmálaráðherra Brasilíu, tísti á sunnudag að Bolsonaro hafi fyrirskipað ítarlega rannsókn og sagði að alríkislögreglan ynni nú að málinu. Þessu tísti hann eftir að Ricardo Salles, umhverfisráðherra landsins, tísti grein frá fréttasíðu Globo Rural, þar sem greint var frá íkveikjuáformunum.

Þar kemur fram að minnst 70 bændur, viðskiptamenn og aðrir sem ásældust landið frá bæjunum Novo Progresso og Altamira hafi staðið að skipulagningu íkveikjanna .


Tengdar fréttir

Sao Paulo myrkvuð vegna reyks frá Amasóneldunum

Gríðarlegir skógareldar loga nú á miklu svæði í Amasón regnskóginum í Suður-Ameríku. Christian Poirier, stjórnandi samtakanna Amazon Watch segir líkur á því að eldarnir hafi kviknað af mannavöldum.

Ræða um skógareldana í Amason á G7-fundinum

Leiðtogar Frakka og Þjóðverja tjáðu sig báðir í gær um þann metfjölda skógarelda sem hafa geisað í Amasonfrumskóginum í Brasilíu á árinu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði að þetta þyrfti að ræða á fundi G7-ríkjanna um helgina. Algjört neyðarástand hefði skapast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×