Erlent

G7-leiðtogar nálgast samkomulag um aðgerðir vegna skógareldanna

Stefán Ó. Jónsson og Sylvía Hall skrifa
Emmanuel Macron Frakklandsforseti tjáði fréttamönnum á fundi G7-ríkjanna í gær að samningurinn muni fela í sér tæknilega og fjárhagslega aðstoð.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti tjáði fréttamönnum á fundi G7-ríkjanna í gær að samningurinn muni fela í sér tæknilega og fjárhagslega aðstoð. Vísir/EPA
Leiðtogar sjö stærstu iðnríkja heims eru taldir nálægt samkomulagi um aðgerðir til að stemma stigu við skógareldunum sem nú geisa í Amason-regnskógunum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti tjáði fréttamönnum á fundi G7-ríkjanna í gær að samningurinn muni fela í sér tæknilega og fjárhagslega aðstoð fyrir ríki þau Suður-Ameríku sem orðið hafa hvað verst úti í eldunum. Ætlað er að samkomulagið verði kynnt síðar í dag, fyrir lok G7-fundarins.

Sjá einnig: Ræða um skógareldana í Amason á G7-fundinum

Hávær krafa hefur verið uppi um að alþjóðasamfélagið grípi í taumana, enda eru Amason-regnskógarnir mikilvæg uppspretta súrefnis fyrir alla heimsbyggðina og heimkynni þriggja milljóna plantna og lífvera. Þá býr um það bil ein milljón frumbyggja í skóginum.

Frakklandsforseti er ekki sá eini sem hefur boðið fram aðstoð sína, en á meðal þeirra sem hafa lofað því að veita aðstoð vegna eldanna er nýr forsætisráðherra Breta, Boris Johnson. Ætlar hann að leggja til tíu milljónir punda til þess að vernda regnskóginn og sporna við eldunum.

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur verið harðlega gagnrýndur af alþjóðasamfélaginu fyrir aðgerðaleysi og sagður eiga þátt í eldunum með því að hafa hvatt bændur og verkafólk á svæðinu til þess að ryðja burtu skóglendi. Á föstudag sendi hann hersveitir á vettvang til þess að reyna að vinna bug á skógareldunum eftir aukna pressu frá alþjóðasamfélaginu og gagnrýni þjóðarleiðtoga víða um heim.


Tengdar fréttir

Ræða um skógareldana í Amason á G7-fundinum

Leiðtogar Frakka og Þjóðverja tjáðu sig báðir í gær um þann metfjölda skógarelda sem hafa geisað í Amasonfrumskóginum í Brasilíu á árinu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði að þetta þyrfti að ræða á fundi G7-ríkjanna um helgina. Algjört neyðarástand hefði skapast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×