Erlent

Árásarmaðurinn í Noregi neitar sök en talar ekki

Kjartan Kjartansson skrifar
Blóm við heimili mannsins þar sem sautján ára gömul stjúpsystir hans fannst myrt.
Blóm við heimili mannsins þar sem sautján ára gömul stjúpsystir hans fannst myrt. Vísir/EPA
Rúmlega tvítugur karlmaður sem ruddist inn í mosku í Bærum í Noregi og særði einn með skotvopni um helgina neitar sök en hefur jafnframt hafnað því að leyfa lögreglu að yfirheyra sig. Maðurinn verður leiddur fyrir dómara í dag.

Unni Fries, lögmaður mannsins, sagði við norska ríkisútvarpið NRK, í gær að hann hefði nýtt sér rétt sinn til að svara ekki spurningum lögreglunnar að svo stöddu. Hann neiti sök en ætli ekki að taka afstöðu til ákæru fyrir dómi.

VG hefur eftir Grete Lien Metlid, yfirmanni leyniþjónustu- og rannsóknardeildar Oslóarlögreglunnar, að maðurinn verði ákærður fyrir hryðjuverk og morð á sautján ára gamalli stjúpsystur sinni. Lík hennar fannst við húsleit á heimili árásarmannsins. Krafist verður fjögurra vikna einangunrargæsluvarðhalds yfir manninum.

Aðeins þrír voru í al-Noor-moskunni þegar maðurinn réðst þar inn á laugardag. Skaut hann einn og særði áður en eldri maður yfirbugaði hann. Enginn særðist alvarlega í árásinni. 

Heimildir NRK herma að árásarmaðurinn hafi gerst mjög trúrækinn síðasta árið og aðhyllst hægriöfgaskoðanir. VG segir að skömmu fyrir árásina hafi færsla í nafni hans verið skrifuð á samfélagsmiðla þar sem meðal annars var lýst aðdáun á fjöldamorðunum í tveimur moskum í Christchurch á Nýja-Sjálandi í mars og í stórverslun í El Paso í Texas í Bandaríkjunum um þarsíðustu helgi. Í færslunni var jafnframt hvatt til kynþáttastríðs.

„Valhöll bíður,“ sagði í niðurlagi færslunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×