Erlent

Skotárásin í Noregi mögulegt hryðjuverk

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Árásarmaðurinn var yfirbugaður af þremur meðlimum moskunnar áður en lögregla kom á vettvang.
Árásarmaðurinn var yfirbugaður af þremur meðlimum moskunnar áður en lögregla kom á vettvang. skjáskot
Verið er að rannsaka skotárásina á Al-Noor moskuna í Noregi sem gerðist í gær sem mögulegt hryðjuverk. Þetta segir í tilkynningu frá lögreglu.

Ungur maður, vopnaður haglabyssum og skammbyssum gekk inn í moskuna, sem er í úthverfi Óslóar í gær. Almennur borgari sem var þegar í moskunni náði að yfirbuga árásarmanninn og varð fyrir lítilsháttar meiðslum við það.

Rune Skjold, aðalrannsóknarlögreglumaður í málinu, sagði að grunaði væri norskur að uppruna og hafi verið kunnugur lögreglu áður en ekki væri hægt að segja að hann hafi framið glæpi áður.

Skjold bætti því við að maðurinn virtist aðhyllast „öfga-hægri“ skoðanir og væri andvígur innflytjendum. Hann hafi þá lýst yfir vorkunn sinni á Vidkun Quisling, sem var forsætisráðherra Noregs á meðan á hernámi nasista stóð í seinni heimsstyrjöldinni.

Talið er að grunaði hafi staðið einn að verki en þegar lögregla leitaði á heimili hans eftir árásina í gær fannst þar lík konu. Lögregla hefur staðfest að hún hafi haft tengsl við grunaða.

Irfan Mushtaq, forstöðumaður moskunnar, sagði að aðeins þrír einstaklingar hafi verið inni í moskunni þegar árásin var framin. Þá sagði hann að einstaklingurinn sem slasaðist hafi verið 75 ára safnaðarmeðlimur moskunnar.

Hann greindi frá því að árásarmaðurinn hafi verið vopnaður tveimur byssum sem líktust haglabyssum sem og skammbyssu. „Hann braust inn í gegn um glerhurð og skaut af byssunum,“ bætti hann við.

Moskan hafði aukið öryggisgæsluna eftir hryðjuverkaárásina í Christchurch í Nýja-Sjálandi fyrr á árinu, þar sem 51 einstaklingar létu lífið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×