Erlent

Óska eftir aðstoð dansks slökkviliðs vegna kjarrelda á Grænlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Sisimiut á vesturströnd Grænlands. Eldarnir geisa við fjörð fyrir norðan þorpið.
Frá Sisimiut á vesturströnd Grænlands. Eldarnir geisa við fjörð fyrir norðan þorpið. Vísir/Getty
Almannavarnir Grænlands hafa beðið heimastjórnina um að óska eftir aðstoð slökkviliðs frá Danmörku til að ráða niðurlögum kjarrelda sem hafa geisað norðaustur af Sisimiut á vesturströndinni frá því í síðasta mánuði.

Slökkviliðsmenn og sjálfboðaliðar höfðu að mestu slökkt í eldunum við Kangerluarsuk Tulleq-fjörð, norðaustur af Sisimiut í síðustu viku. Þegar vindáttin breyttist á sunnudagskvöld blossuðu þeir upp aftur og breiddu úr sér um enn stærra svæði en áður, að sögn grænlenska útvarpsins KNR.

Heimastjórnin tilkynnti á sunnudag að almannavarnir Grænlansd hefði beðið um hjálp þrjátíu slökkviliðsmanna frá Danmörku. Slökkviliðið í Sisimiut fékk einnig tíu sjálfboðaliða þaðan til að hjálpa við slökkvistarfið. Tíu slökkviliðsmenn voru sendir með tæki frá Avannaata og Qeqertalik sömuleiðis.

Tveir kofar sem voru í byggingu við fjörðinni brunnu í eldunum. KNR hefur eftir Ole Kreutzmann, yfirmanni almannavarna í Qeqqata, að fleiri kofar séu í hættu á að verða eldinum að bráð.

Í spilaranum fyrir neðan má sjá myndband grænlenska útvarpsins KNR frá kjarreldunum.

Fréttavefurinn Sermitsiaq segir að kjarreldarnir hafi upphaflega kviknað út frá viðarofni snemma í júlí. Eldurinn hafi breiðst hratt út í þurru umhverfinu.

Reykurinn frá eldunum hefur náð til Sisimiut. Læknar hafa ráðlagt fólki með lungasjúkdóma að halda sig innandyra þegar reykmengunin er sem mest.

Óvenjuleg hlýindi hafa verið á Grænlandi og víðar á norðurslóðum í sumar. Tugir milljarða tonna af ís bráðnuðu af Grænlandsjökli í hitabylgju þar á dögunum. Miklir kjarreldar hafa einnig geisað í Alaska og Síberíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.