Slökkviliðsmenn og sjálfboðaliðar höfðu að mestu slökkt í eldunum við Kangerluarsuk Tulleq-fjörð, norðaustur af Sisimiut í síðustu viku. Þegar vindáttin breyttist á sunnudagskvöld blossuðu þeir upp aftur og breiddu úr sér um enn stærra svæði en áður, að sögn grænlenska útvarpsins KNR.
Heimastjórnin tilkynnti á sunnudag að almannavarnir Grænlansd hefði beðið um hjálp þrjátíu slökkviliðsmanna frá Danmörku. Slökkviliðið í Sisimiut fékk einnig tíu sjálfboðaliða þaðan til að hjálpa við slökkvistarfið. Tíu slökkviliðsmenn voru sendir með tæki frá Avannaata og Qeqertalik sömuleiðis.
Tveir kofar sem voru í byggingu við fjörðinni brunnu í eldunum. KNR hefur eftir Ole Kreutzmann, yfirmanni almannavarna í Qeqqata, að fleiri kofar séu í hættu á að verða eldinum að bráð.
Í spilaranum fyrir neðan má sjá myndband grænlenska útvarpsins KNR frá kjarreldunum.
Reykurinn frá eldunum hefur náð til Sisimiut. Læknar hafa ráðlagt fólki með lungasjúkdóma að halda sig innandyra þegar reykmengunin er sem mest.
Óvenjuleg hlýindi hafa verið á Grænlandi og víðar á norðurslóðum í sumar. Tugir milljarða tonna af ís bráðnuðu af Grænlandsjökli í hitabylgju þar á dögunum. Miklir kjarreldar hafa einnig geisað í Alaska og Síberíu.