Erlent

Stefnir í metbráðnun á Grænlandsjökli í ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Ár bráðnunarvatns á vestanverðum Grænlandsjökli 1. ágúst. Vatnið flæðir út í sjó og hækkar yfirborð sjávar.
Ár bráðnunarvatns á vestanverðum Grænlandsjökli 1. ágúst. Vatnið flæðir út í sjó og hækkar yfirborð sjávar. AP/Caspar Haarløv
Útlit er fyrir að meira en 300 milljarðar tonna íss bráðni á Grænlandsjökli á þessu ári. Óvenjuleg hlýindi hafa þegar valdið bráðnun á um 250 milljörðum tonna íss þegar meira en mánuður er eftir af bráðnunartímabilinu.

Grænland hefur ekki farið varhluta af hitabylgjunni sem gekk yfir vestanverða Evrópu nýlega. Hitinn þar var nálægt frostmarki inn á jöklinum um tíma í síðustu viku. Þegar hlýindin voru í hámarki var hitinn tólf gráðum yfir meðaltali áranna 1981 til 2010. Talið er að þá hafi um 12 til 24 milljarðar tonna af ís bráðnað daglega, um 6-18 milljörðum tonnum meira en að meðaltali þá daga árin 1981 til 2010. Enn eru 35 til 40 dagar eftir af sumarbráðnun.

Snjó- og ísgagnamiðstöð Bandaríkjanna áætlar að 90% af yfirborði ísþekjunnar hafi bráðnað á milli 30. júlí og 3. ágúst. Bráðnun í júlí hafi verið langt yfir meðaltali. Jökullinn hafi nú þegar tapað um 250 milljörðum tonna. Washington Post segir það á við 90 milljónir sundlauga í ólympískri stærð af vatni eða vatnsneyslu allra jarðarbúa í fjörutíu ár.

Árið 2012 tapaði Grænlandsjökull um 300 milljörðum tonna af yfirboði sínu. Ístapið nú er nánast það sama þrátt fyrir minni bráðnun vegna lítillar snjókomu á jöklinum í vetur. Þann snjó tók snemma upp og hlýindin hafa gengið á eldri snjó og ís á stórum hluta jökulsins.

Á sama tíma er útlit fyrir árið í ár verði á meðal þeirra fimm þar sem útbreiðsla hafíssins á norðurskautinu hefur mælst minnst frá því að gervihnattaathuganir hófust við lok 8. áratugsins. Útbreiðslan í lok júlí var í lægstu lægðum og útlit er fyrir að hún minnki enn í þessum mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.