Svartklæddir mótmælendur hafa andæft lögregluofbeldi og krafist lýðræðis á alþjóðaflugvellinum í dag. Washington Post segir að engu að síður hafi flugsamgöngur verið að komast aftur í fastar skorður eftir að ferðum var aflýst í gær þegar innritun fyrir brottfarir var frestað tímabundið. Þá höfðu mótmælendur komið upp vegartálmum með farangurskerrum og hindrað brottfararfarþega.
Tíu vikur eru nú frá því að mótmælin í Hong Kong hófust. Upphaflega beindust þau að umdeildu frumvarpi sem hefði heimilað framsal á Hong Kong-búum í hendur kínverskra yfirvalda. Mótmælin hafa haldið áfram þrátt fyrir að fallið hafi verið frá frumvarpinu. Beinast þau nú fremur að því að tryggja frelsið sem Hong Kong hefur notið sem sérstök stjórnsýslueining innan Kína.