Erlent

Flugferðum áfram aflýst í Hong Kong vegna mótmælanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur á flugvellinum í Hong Kong halda um augun. Margir þeirra hafa vakið athygli á atviki þar sem svo virðist sem að lögregla hafi skotið gúmmíkúlu í auga ungrar konu á mótmælum á sunnudag.
Mótmælendur á flugvellinum í Hong Kong halda um augun. Margir þeirra hafa vakið athygli á atviki þar sem svo virðist sem að lögregla hafi skotið gúmmíkúlu í auga ungrar konu á mótmælum á sunnudag. Vísir/EPA
Yfirvöld í Hong Kong hafa aflýst flugferðum til og frá borgarinnar vegna fjölmennra mótmæla, annan daginn í röð. Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, biðlaði til mótmælenda um að steypa borginni ekki niður í „hyldýpi‟.

Svartklæddir mótmælendur hafa andæft lögregluofbeldi og krafist lýðræðis á alþjóðaflugvellinum í dag. Washington Post segir að engu að síður hafi flugsamgöngur verið að komast aftur í fastar skorður eftir að ferðum var aflýst í gær þegar innritun fyrir brottfarir var frestað tímabundið. Þá höfðu mótmælendur komið upp vegartálmum með farangurskerrum og hindrað brottfararfarþega.

Á blaðamannafundi fyrr í dag sagði Lam að Hong Kong væri komin í „hættulega stöðu‟. Ofbeldi á mótmælunum myndi ýta borginni niður „leið þaðan sem ekki er afturkvæmt‟. Breska ríkisútvarpið BBC segir að fréttamenn hafi reiðst Lam þegar hún vék sér undan spurningum þeirra. Þeir hafi ítrekað hrópað og gripið fram í fyrir henni.

Tíu vikur eru nú frá því að mótmælin í Hong Kong hófust. Upphaflega beindust þau að umdeildu frumvarpi sem hefði heimilað framsal á Hong Kong-búum í hendur kínverskra yfirvalda. Mótmælin hafa haldið áfram þrátt fyrir að fallið hafi verið frá frumvarpinu. Beinast þau nú fremur að því að tryggja frelsið sem Hong Kong hefur notið sem sérstök stjórnsýslueining innan Kína.


Tengdar fréttir

Mótmælin í Hong Kong verða ofbeldisfyllri

Enn ein átökin brutust út milli lögreglu og mótmælanda í Hong Kong í dag en mótmælin hafa farið reglulega fram síðastliðnar tíu vikur. Lögreglan veitti ekki leyfi fyrir fjöldasamkomu eða kröfugöngu um helgina en mótmælendur létu það ekki á sig fá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×