Enski boltinn

Van Dijk ráðleggur Harry Maguire

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Maguire er mættur til Man. Utd.
Maguire er mættur til Man. Utd. vísir/getty
Harry Maguire varð í gær dýrasti varnarmaður sögunnar þegar félagaskipti hans frá Leicester til Manchester United gengu loks í gegn og borgar Manchester stórveldið 80 milljónir punda fyrir þennan 26 ára gamla Englending.

Erkifjendurnir í Liverpool áttu gamla metið sem er eins og hálfs árs gamalt en þá borguðu þeir 75 milljónir punda fyrir hollenska varnarmanninn Virgil van Dijk sem kom til Liverpool frá Southampton.

Kaupin á van Dijk hafa heldur betur borgað sig fyrir Liverpool og er óhætt að segja að hann hafi staðið undir verðmiðanum. Hann hefur því ráð undir rifi hverju fyrir dýrasta varnarmann sögunnar.

„Verðmiðinn eykur pressuna en það breytir ekki mjög miklu því það er alltaf pressa á þér hjá jafn stóru félagi og Man Utd. Það er ekki auðvelt að höndla þessa pressu en það er gott að hafa í huga að það er margt mikilvægara í heiminum en að spila fótbolta. Þú verður að njóta þess því pressan verður hvort eð er alltaf til staðar,“ segir van Dijk.

„Maður verður að einbeita sér að því sem maður elskar að gera og spila sinn leik. Ef andstæðingarnir eru að minna þig á hvað þú kostar inn á vellinum getur maður lítið gert. Ég hlusta ekki á þá og það hefur engin áhrif á mig,“ segir Hollendingurinn stóri og stæðilegi jafnframt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×