Erlent

Hitamet slegið í París og hlýnar enn

Kjartan Kjartansson skrifar
Parísarbúar reyna að kæla sig í gosbrunni við Louvre-safnið.
Parísarbúar reyna að kæla sig í gosbrunni við Louvre-safnið. AP/Rafael Yaghobzadeh
Yfirvöld í Frakklandi vara við því að enn hlýni þar í veðri í annarri hitabylgjunni sem gengur yfir Evrópu á þessu sumri. Hitamet var slegið í París þegar mælirinn sýndi 40,6°C í gær. Fleiri meti gætu fallið annars staðar í álfunni þegar hitabylgjan nær hámarki sínu.

Rautt viðbúnaðarstig er nú í norðanverðu Frakklandi vegna hitans. Spáð er allt að 42-43°C hita þar í dag. Í Belgíu, Þýskalandi og Hollandi gætu hitamet verið slegin í annað skipti á jafnmörgum dögum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þá er spáð allt að 39°C hita á Bretlandi í dag.

AP-fréttastofan hefur eftir frönsku veðurstofunni að hitametið í París hafi verið slegið síðdegis í gær. Fyrra met hafði staðið frá árinu 1947. Franskt hitamet var slegið í hitabylgjunni í júní þegar hann mældist 46°C í sunnanverðu landinu.

Í Frakklandi hafa yfirvöld hvatt fólk til að forðast ferðalög og að vinna heiman frá sér hafi það tök á því. Barnaheimilum hefur verið lokað vegna hitans. Fimm eru taldir látnir af völdum hitans þar í landi.

Í Hollandi drápust hundruð svína þegar loftræsting brást á búa þar og yfirvöld hafa varða við mengunarþoku í borgum. Í norðanverðu Þýskalandi er varað við því að fiskar og skelfiskur gæti drepist þar sem ár og vötn hafa þornað upp. Á Bretlandi er lestum ekið hægar til að forðast að teinarnir láti undan í stækjunni.

Hitabylgjur eiga sér stað náttúrulega en hnattræn hlýnun af völdum manna er talin auka líkurnar á þeim og gera þær ákafari. Meginorsök hnattrænnar hlýnunar er losun manna á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×