Erlent

Hiti gæti náð 38 stigum í Evrópu þegar hættuleg hitabylgja fer yfir álfuna

Eiður Þór Árnason skrifar
Ljóst er að margir Evrópubúar muni þurfa að kæla sig niður með ýmsum skapandi leiðum í komandi viku.
Ljóst er að margir Evrópubúar muni þurfa að kæla sig niður með ýmsum skapandi leiðum í komandi viku. Getty/SOPA Images
Spáð er að hiti nái allt að 38 stigum í borgunum Madríd, Lyon og París á næstu dögum. Í öðrum borgum á borð við Lundúnir, Brussel, Amsterdam, Frankfurt, Berlín, Munchen og Mílan er því spáð að hiti geti farið yfir 32 stig. Talið er að hitabylgjan muni hafa víðtæk áhrif á stóran hluta meginlands Evrópu.

Evrópa á von á stærðarinnar hitabylgju í komandi viku þegar vindakerfi mun draga heitt loft frá Norður-Afríku og Spáni þvert yfir Evrópu. Talið er að þetta leiði til langvarandi hitabylgju og að hitastig muni sums staðar ná hættulegum hæðum í fimm daga eða lengur.

Hitabylgjan kemur minna en mánuði eftir að söguleg hitabylgja gekk yfir hluta Evrópu í lok júní. Þá féll allsherjar hitamet í Frakklandi og júní hitamet í Þýskalandi, Austurríki, Ungverjalandi, Pólandi, Litáen, Tékklandi og Slóvakíu. Því er spáð að komandi hitabylgja muni að mörgu leyti svipa til þeirrar síðustu.

Einnig er talið að hiti muni sums staðar ekki ná að fara niður fyrir 21 stig að næturlagi. Slíkt myndi auka áhættuna á hitatengdum veikindum meðal aldraðra og ungmenna, þar sem byggingar myndu ekki ná að kólna fyllilega áður en sterk sólin rís upp að nýju.

Vonast er til að kaldara loft fari að berast aftur yfir Evrópu seint í þessari viku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.