Erlent

Spáir methita víða í Evrópu í annarri hitabylgju sumarsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjölskylda kælir sig í Labenne í suðvesturhluta Frakklands þar sem hitinn fór í 40 gráður í gær.
Fjölskylda kælir sig í Labenne í suðvesturhluta Frakklands þar sem hitinn fór í 40 gráður í gær. AP/Bob Edme

Íbúar Vestur-Evrópu búa sig nú undir aðra hitabylgjunni á þessu sumri og er spáð methita í nokkrum löndum, þar á meðal Belgíu, Þýskalandi og Hollandi. Alþjóðaveðurfræðistofnunin segir hitabylgjurnar tvær bera einkenni loftslagsbreytinga af völdum manna.

Í Bordeaux í Frakklandi mældist hæsti hiti frá upphafi mælinga í gær. Þá sýndi hitamælirinn 41,2°C, hálfri gráðu meira en fyrra met sem voru 40,7°C árið 2003. Appelsínugul viðvörun er í gildi víða í Frakklandi vegna hita. Varað er við því að hitamet sem hefur staðið frá 1947 gæti verið slegið í París. Það stendur nú í 40,4°C.

Hitinn á einnig að fara í 40°C í nokkrum löndum Evrópu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Í Belgíu hefur rauðu viðbúnaðarstigi verið lýst yfir fyrir allt landið í fyrsta skipti. Nærri Zaragoza á Mið-Spáni er einnig rauð viðvörun í gangi vegna hættu á kjarreldum. Varað er við mikilli hættu á kjarreldum þar og í Portúgal. Í Hollandi er viðlagaáætlun vegna hita í gildi og á Bretlandi er búist við því að hitinn fari í og yfir 35°C.

Losun manna á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi, hefur valdið hlýnun upp á um það bil eina gráðu frá því fyrir iðnbyltingu. Vísindamenn segja að hnattræn hlýnun gerir hitabylgjur líklegri og ákafari en áður.

Claire Nullis, talskona Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, segir að eins og sést hafi á hitabylgjunni sem gekk yfir Evrópu í júní þá séu þær að verða tíðari, þær hefjist fyrr og verði ákafari.

„Þetta er ekki vandamál sem er að hverfa,“ segir hún.

Meðalhiti á jörðinni í júní var sá hæsti sem mælst hefur í þeim mánuði, meðal annars vegna hitabylgjunnar sem þá gekk yfir Evrópu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.