Erlent

Orkufyrirtæki gagnrýnt fyrir að hafa vísvitandi slegið út rafmagni í miðri hitabylgju

Eiður Þór Árnason skrifar
Þetta er í annað skipti á stuttum tíma sem stórfellt rafmagnsleysi skekur New York borg. Myndin er frá rafmagnsleysi á Manhattan fyrr í mánuðinum.
Þetta er í annað skipti á stuttum tíma sem stórfellt rafmagnsleysi skekur New York borg. Myndin er frá rafmagnsleysi á Manhattan fyrr í mánuðinum. Vísir/EPA
Þúsundir íbúa í suðausturhluta Brooklyn í New York voru enn án rafmagns á mánudagsmorgun að staðartíma þegar borgin jafnaði sig eftir stórfellt rafmagnsleysi sem skók hana á sunnudag. Þetta er í annað sinn í mánuðinum sem borgin þarf að glíma við slíkt áfall.

Rafmagnsleysið kemur á sérstaklega óheppilegum tíma þar sem borgin glímir samhliða því við hitabylgju sem hefur leitt til mikillar orkunotkunar. Hitastig í borginni hefur sums staðar farið yfir 32 stig og keppast íbúar við að kæla sig niður.

Orkufyrirtækið Con Edison, sem sér um að veita stærstum hluta borgarinnar rafmagn, tók raforku vísvitandi af 33 þúsund notendum seint í gær. Var þetta gert til þess að reyna að koma í veg fyrir að mikið álag á raforkukerfinu myndi leiða til enn víðtækara rafmagnsleysis.

Samkvæmt upplýsingum frá orkufyrirtækinu leiddi rafmagnsleysi í öðrum hluta borgarinnar til þess að samtals voru yfir fimmtíu þúsund notendur án rafmagns seint á sunnudag. Um klukkan sex að morgni mánudags að staðartíma greindi fyrirtækið frá því að tæp tuttugu þúsund notendur væru enn án raforku í borginni, og að hinir sem eftir væru ættu að fá rafmagn seinnipartinn í dag.

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, gagnrýndi orkufyrirtækið harðlega og sagði að það hefði átt að vera betur undirbúið undir hitabylgjuna sem gengur nú yfir svæðið. Cuomo hefur óskað eftir rannsókn á stórfelldu rafmagnsleysi á Manhattan sem átti sér stað fyrr í júlí.


Tengdar fréttir

Reykjarmökkur og vatnavextir í hitabylgju í Alaska

Methlýindi í Alaska hafa skapað kjöraðstæður fyrir kjarrelda sem geisa nú víða í ríkinu. Leysingar á jöklum og fjöllum hafa einnig valdið vatnavöxtum og flóðum í ám og lækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×