Enski boltinn

„Leikmenn láta umboðsmenn hafa allt of mikil áhrif“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hvað gerist í málum Paul Pogba í sumar veit enginn
Hvað gerist í málum Paul Pogba í sumar veit enginn vísir/getty
Manchester United goðsögnin Bryan Robson segir að Paul Pogba eigi að láta lítið fyrir sér fara næstu daga og ekki láta umboðsmann sin hafa áhrif á sig.

Ein mest áberandi sagan í þessum félagsskiptaglugga eru möguleg vistaskipti Pogba. Hann hefur sagst vilja nýja áskorun og Mino Raiola, umboðsmaður hans, segir hann vilja fara.

Real Madrid og Juventus eru bæði sögð áhugasöm um franska miðjumanninn.

Pogba ákvað að fara ekki sömu leið og Laurent Koscielny og neita að fara í æfingaferð með félögum sínum, hann var mættur með Manchester United til Ástralíu þar sem liðið er í æfingaferð.

„Þú ert leikmaður Manchester United. Þú ert samningsbundinn þeim og verður að gefa allt þitt fyrir félagið, liðið og stuðningsmennina,“ sagði Robson við Sky Sports en hann er með United í Ástralíu sem sendiherra félagsins.

„Það er mikið um sögusagnir um Paul. Hann þarf að hafa hægt um sig, gera eins vel og hann getur á undirbúningstímabilinu, sem hann hefur gert hingað til, og hvort sem eitthvað gerist eða ekki þá þarf hann að halda áfram.“

„Leikmenn láta umboðsmenn sína hafa allt of mikil áhrif á sig í stað þess að taka sínar eigin ákvarðanir. Stundum viltu fá ráð um hvað sé rétta skrefið, en þú ert þinn eigin herra og getur séð sjálfur hvaða leið þú vilt fara á ferlinum.“

„Umboðsmenn vilja að leikmenn fari á milli félaga því þá græða þeir peninga. Ef leikmaður er trúr sínu félagi græðir umboðsmaðurinn ekki eins mikið,“ sagði Bryan Robson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×