Erlent

Losun Kínverja jókst um helming á áratug

Kjartan Kjartansson skrifar
Kolaorkuver í Hong Kong spúir reyk út í andrúmsloft jarðar.
Kolaorkuver í Hong Kong spúir reyk út í andrúmsloft jarðar. Vísir/EPA

Opinberar tölur kínverskra stjórnvalda benda til þess að losun gróðurhúsalofttegunda í Kína hafi aukist um rúman helming frá 2005 til 2014. Kínverjar hafa sagst stefna á því að losunin nái hámarki árið 2030 og minnki þaðan í frá.

Reuters-fréttastofan segir að ógegnsæi ríki alla jafna um mengun í Kína. Nýjustu losunartölurnar eru þær sem kínversk stjórnvöld skiluðu vegna loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Alls nam losunin 12,3 milljörðum tonna af koltvísýringi og jókst hún um 53,5% á áratug.

Ekki er tekið tillit til landnotkunar í þeim tölum. Kínverska umhverfisráðuneytið heldur því fram að sé tekið tillit til bindingar skóga og annars gróðurs hafi nettó losunin numið 11,2 milljörðum tonna. Það er engu að síður 17% aukning frá 2010.

Áætlað hefur verið að losun Kínverja hafi náð 9,54 milljörðum tonna árið 2013 og hafði þá aldrei verið meiri. Rannsókn sem birtist í vísindaritinu Nature Geoscience taldi að losunin hefði dregist saman næstu þrjú árin á eftir vegna samdráttar í eftirspurn eftir orku. Hún hefur síðan aukist aftur.

Kínverjar eru stórtækustu losendur gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum í heiminum, á undan Bandaríkjunum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.