Erlent

Gerðu tölvuárás á vopnakerfi íranska hersins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tölvuárásin lamaði tölvukerfi sem stýra eldflaugavarnakerfi Írans.
Tölvuárásin lamaði tölvukerfi sem stýra eldflaugavarnakerfi Írans. Getty/Kaveh Kazemi

Bandaríkin gerðu tölvuárás á vopnakerfi Íran á fimmtudaginn í síðustu viku eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hætti við loftárásir á landið á síðustu stundu. Tölvuárásin lamaði tölvukerfi sem stýra eldflaugavarnakerfi Írans.

Spenna á milli yfirvalda í Íran og Bandaríkjunum er mikil um þessar mundir en Bandaríkjamenn hafa sakað Írani um stjórnvöld í Teheran um skemmdarverk á olíuflutningaskipum í Ómanflóa. Þá skaut íranski herinn niður eftirlitsdróna á vegum Bandaríkjahers.

Í frétt Washinton Post segir að tölvuárásin hafi verið hefndaraðgerð fyrir skemmdarverkin á olíuflutningaskipunum. Var árásinni einkum beint að eldflaugakerfum íranska hersins sem skaut niður drónann í síðustu viku.

Bandaríkin eru þó ekki ein um að gera tölvuárásir en í gær var greint frá því að fjöldi tölvuárása á stofnanir bandaríska ríkisins og mikilvæga innviði hafi farið vaxandi eftir því sem spenna hefur aukist milli Bandaríkjanna og Íran. Á síðustu vikum hafa tölvuþrjótar sem taldir eru vera á vegum íranskra stjórnvalda meðal annars beint spjótum sínum að bandarískum ríkisstofnunum og fyrirtækjum í olíu- og gasiðnaði.

Trump Bandaríkjaforseti segist ekki vilja fara í stríð við Íran, en hefur varað við því að ef til hernaðarátaka kæmi muni Íran standa frammi fyrir gjöreyðingu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.