Erlent

Gerðu tölvuárás á vopnakerfi íranska hersins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tölvuárásin lamaði tölvukerfi sem stýra eldflaugavarnakerfi Írans.
Tölvuárásin lamaði tölvukerfi sem stýra eldflaugavarnakerfi Írans. Getty/Kaveh Kazemi
Bandaríkin gerðu tölvuárás á vopnakerfi Íran á fimmtudaginn í síðustu viku eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hætti við loftárásir á landið á síðustu stundu. Tölvuárásin lamaði tölvukerfi sem stýra eldflaugavarnakerfi Írans.

Spenna á milli yfirvalda í Íran og Bandaríkjunum er mikil um þessar mundir en Bandaríkjamenn hafa sakað Írani um stjórnvöld í Teheran um skemmdarverk á olíuflutningaskipum í Ómanflóa. Þá skaut íranski herinn niður eftirlitsdróna á vegum Bandaríkjahers.

Í frétt Washinton Post segir að tölvuárásin hafi verið hefndaraðgerð fyrir skemmdarverkin á olíuflutningaskipunum. Var árásinni einkum beint að eldflaugakerfum íranska hersins sem skaut niður drónann í síðustu viku.

Bandaríkin eru þó ekki ein um að gera tölvuárásir en í gær var greint frá því að fjöldi tölvuárása á stofnanir bandaríska ríkisins og mikilvæga innviði hafi farið vaxandi eftir því sem spenna hefur aukist milli Bandaríkjanna og Íran. Á síðustu vikum hafa tölvuþrjótar sem taldir eru vera á vegum íranskra stjórnvalda meðal annars beint spjótum sínum að bandarískum ríkisstofnunum og fyrirtækjum í olíu- og gasiðnaði.

Trump Bandaríkjaforseti segist ekki vilja fara í stríð við Íran, en hefur varað við því að ef til hernaðarátaka kæmi muni Íran standa frammi fyrir gjöreyðingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×