Fótbolti

Tyrkir aldrei unnið á Laugardalsvelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson kom Íslandi á bragðið í sigrinum á Tyrklandi á Laugardalsvellinum 2014.
Jón Daði Böðvarsson kom Íslandi á bragðið í sigrinum á Tyrklandi á Laugardalsvellinum 2014. vísir/anton

Ísland og Tyrkland mætast á Laugardalsvellinum í undankeppni EM 2020 klukkan 18:45 í kvöld. Mikið hefur gengið á í aðdraganda leiksins sem er afar mikilvægur fyrir bæði lið. Tyrkir eru með níu stig á toppi H-riðils en Íslendingar eru með sex stig í 3. sætinu.

Þetta er í sjöunda sinn sem Tyrkir sækja Íslendinga heim. Í sex leikjum á Laugardalsvelli hefur Tyrkland aðeins fengið eitt stig. Ísland hefur unnið fimm leiki og einu sinni varð jafntefli. Markatalan er 14-2, Íslendingum í vil.

Tyrkir komu fyrst í heimsókn hingað til lands í undankeppni HM haustið 1981. Íslendingar unnu leikinn 2-0 með mörkum Lárusar Guðmundssonar og Atla Eðvaldssonar. Ísland vann einnig útileikinn gegn Tyrklandi, 1-3.

Liðin lentu aftur saman í riðli í undankeppni HM 1990. Fyrri leikurinn ytra fór 1-1 en Ísland vann leik liðanna á Laugardalsvellinum, 2-1. Pétur Pétursson skoraði bæði mörk Íslands.

Arnór Guðjohnsen skoraði fernu í sigri Íslands á Tyrklandi í Laugardalnum fyrir 28 árum. mynd/brynjar gauti

Sumarið 1991 skoraði Arnór Guðjohnsen fernu í 5-1 sigri á Tyrkjum í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum. Sigurður Grétarsson var einnig á skotskónum í leiknum.

Ísland og Tyrkland voru saman í riðli í undankeppni EM 1996. Tyrkir unnu fyrri leikinn ytra, 5-0, en sá seinni á Laugardalsvellinum fór 0-0. Það er eina stigið sem Tyrkland hefur náð í hér á landi.

Að neðan má sjá svipmyndir frá 5-0 leiknum ytra þar sem Birkir Kristinsson fór meiddur snemma af velli. Varamarkvörðurinn Kristján Finnbogason hafði nóg að gera í markinu.

Ísland vann 3-0 sigur á Tyrklandi í undankeppni EM haustið 2014. Jón Daði Böðvarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörk íslenska liðsins.

Tyrkir unnu seinni leikinn í Konya, 1-0, en þá voru Íslendingar búnir að tryggja sér sæti í lokakeppni EM.

Svipmyndir úr 3-0 sigrinum á Laugardalsvelli og umræðu um leikinn má sjá hér að neðan.

Íslendingar unnu svo flottan 2-0 sigur á Tyrkjum í undankeppni HM 2018 á Laugardalsvelli. Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.