Innlent

Isavia segir raftæki og vökva hafa tafið öryggisleit tyrkneska liðsins

Birgir Olgeirsson skrifar
Emre Belozoglu, fyrirliði Tyrklands, á Keflavíkurflugvelli í gær.
Emre Belozoglu, fyrirliði Tyrklands, á Keflavíkurflugvelli í gær. Vísir/Getty
Um áttatíu mínútur liðu frá því vél tyrkneska landsliðsins kom í stæði á Keflavíkurflugvelli og þar til síðustu farþegar voru komnir út um tollsal. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Isavia um málið en þar kemur fram að vélin hafi komið frá flugvelli sem er ekki hluti af skilgreindu heildstæðu öryggissvæði sem gildir fyrir flugvelli í ríkjum ESB og EES.

Vélin var komin í stæði á Keflavíkurflugvelli um klukkan 19:40 í gærkvöldi og voru síðustu farþegar komnir út um tollsal um klukkan 21.

Í tilkynningu frá Isavia segir að öryggisleitin gangi vanalega fljótt fyrir sig en í gærkvöldi tók leitin þó lengri tíma þar sem leita þurfti að raftækjum og vökva í óvanalega mörgum töskum farþega með vélinni þar sem óskum um að slíkt væri fjarlægt úr töskum var ekki sinnt í öllum tilfellum.

Leikmenn landsliðs Tyrklands kvörtuðu undan seinagangi við öryggisleitin og sögðu hana hafa tekið um þrjá tíma þar sem leitað ítarlega og endurtekið í farangri þeirra.

Hafa tyrknesk stjórnvöld kvartað formlega undan þessu og er utanríkisráðuneytið nú með málið til skoðunar.

Yfirlýsingu Isavia má sjá hér fyrir neðan:

Vegna frétta af komu tyrkneska karlalandsliðsins í knattspyrnu til Ísland er rétt að árétta að brottfararflugvöllur landsliðshópsins í Tyrklandi er ekki hluti af skilgreindu heildstæðu öryggissvæði, eða One Stop Security, sem gildir fyrir flugvelli í ríkjum ESB og á EES-svæðinu eða í þeim löndum sem gert hafa sérstaka samninga um það. Isavia er því skylt að framkvæma öryggisleit á öllum farþegum sem koma frá slíkum flugvöllum. Íslenskir farþegar, svo og farþegar allra annarra þjóða sem koma frá flugvöllum utan One Stop Security þurfa að fara í gegnum sama ferli.

Öryggi farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll er eitt af grunngildum Isavia og öryggisreglur þær sem fylgt er á flugvellinum eru settar á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga. Af þeim sökum eru Isavia ekki í neinni stöðu til að gefa undantekningar frá þessum mikilvægu reglum.

Öryggisleitin gengur vanalega fljótt fyrir sig en í gærkvöldi tók leitin þó lengri tíma þar sem leita þurfti að raftækjum og vökva í óvanalega mörgum töskum farþega með vélinni þar sem óskum um að slíkt væri fjarlægt úr töskum var ekki sinnt í öllum tilfellum.

Ferlið gekk þó fljótt fyrir sig. Flugvél tyrkneska liðsins kom í stæði á Keflavíkurflugvelli um kl. 19:40 í gærkvöld og voru síðustu farþegar komnir út um tollsal um kl. 21. Ferlið í heild sinni hefur því tekið um 80 mínútur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.