Innlent

Utan­­­ríkis­ráð­herra Tyrkja ó­­sáttur við með­­ferð á tyrk­nesku leik­­mönnunum á Kefla­víkur­flug­velli

Birgir Olgeirsson skrifar
Hér má sjá þegar þvottabursti var réttur framan í Emre Belozoglu á Keflavíkurflugvelli.
Hér má sjá þegar þvottabursti var réttur framan í Emre Belozoglu á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Getty

Utanríkisráðherra Tyrklands hefur brugðist illa við eftir að fregnir bárust af óánægju liðsmanna karlalandsliðs Tyrklands í fótbolta með eftirlitið sem þeir þurftu að undirgangast á Keflavíkurflugvelli þegar þeir komu til landsins í gær. 

Greint er frá þessu á tyrkneska miðlinum Daily Sabah þar sem farið er yfir málið. 

Tyrkneska liðið mætir því íslenska á Laugardalsvelli á morgun í undankeppni EM í fótbolta.

Daily Sabah hefur eftir framherja tyrkneska liðsins, Burak Yilmaz, að starfsmenn Keflavíkurflugvallar hefðu látið hann og liðsfélaga hans bíða í rúma þrjá tíma við vegabréfaeftirlitið og að þeir hafi þurft að undirgangast ítarlega og endurtekna leit áður en þeim var hleypt inn í landið. 

Tyrknesku leikmennirnir þurftu að bíða í þrjá tíma við vegabréfaeftirlit og segjast hafa þurft að undirgangasta óþarflega ítarlega leit. Skjáskot af vef Daily Sabah

Þegar þeir voru komnir í gegnum eftirlitið beið þeirra hópur tyrkneskra fjölmiðlamanna sem vildu fá að ræða við þá en á meðal þeirra var ungur maður sem þóttist vera fjölmiðlamaður með því að rétta þvottabursta í andlitið á Emre Belözoğlu, fyrirliða tyrkneska liðsins. 

„Það sem gerðist hér er dónaskapur. Við höfum beðið í þrjá klukkutíma. Þeir tóku töskur okkar allra. Þeir leituðu ítarlega í þeim. Við flugum í sex og hálfa klukkustund og höfum þurft að bíða í þrjá tíma. Sumir af vinum okkar eiga enn eftir að komast í gegn,“ er haft eftir Burak Yilmaz á Daily Sabah.

Miðillinn hefur eftir Belözoğlu að liðsmenn hafi þurft að fara í gegnum ítarlega leit að óþörfu og bætti við að hann vonaðist til að yfirvöld á Íslandi myndu útskýra ástæðuna að baki þessari raun. 

Utanríkisráðherra Tyrkja, Mevlüt Çavuşoğlu, segir þessa meðferð tyrkneska liðsins óásættanlega þegar kemur að sjónarmiðum um háttvísi í samskiptum ríkja og  mannúðar. 
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.