Erlent

Kenna Írönum um árásir í Ómanflóa

Kjartan Kjartansson skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fullyrðir að Íranir hafi staðið að baki árásum á tvö olíuflutningaskip í Ómanflóa í dag. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum en utanríkisráðherra Írans hefur lýst þeim sem „grunsamlegum“.

Vangaveltur eru uppi um að flutningaskipin tvö hafi orðið fyrir tundurskeytum eða neðansjávarsprengju. Áhöfnum beggja skipa var bjargað. Svipaðar árásir voru gerðar á fjögur flutningaskip á svipuðum slóðum í maí.

Pompeo lagði ekki fram sannanir fyrir ábyrgð Írana þegar hann ræddi við fréttamenn í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Hann sagði matið byggja á njósnum, vopnunum sem voru notuð, sérfræðiþekkingunni sem til þurfti, nýlegar árásir sem Íranir hafa verið sakaðir um og að aðrir hópar séu ekki færir um árásir af þessu tagi.

Spenna á milli Bandaríkjanna og Írans hefur stigmagnast undanfarnar vikur og mánuði. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt viðskiptaþvinganir á Írani eftir að hann sagði Bandaríkin frá kjarnorkusamningi heimsveldanna við Íran í fyrra. Íranar hafa á móti hótað að loka Hormússundi fái þeir ekki að selja olíu úr landi.

Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, lýsti árásunum sem „grunsamlegum“ á Twitter. Íranir neita ábyrgð á árásunum sem áttu sér stað í maí.

Öryggissérfræðingar vara við því að hrapað sé að ályktunum um árásirnar í dag. Hugsanlega séu Íranir ábyrgir en einnig sé mögulegt aðrir hópar reyni að koma höggi á stjórnvöld í Teheran.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×