Erlent

Sprengingar í olíuskipum á Ómanflóa

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Annað skipanna sem um ræðir, Front Altair, í höfn í Antwerpen í Belgíu árið 2018.
Annað skipanna sem um ræðir, Front Altair, í höfn í Antwerpen í Belgíu árið 2018. Patrick Vereecke/AP
Áhöfnum tveggja olíuskipa á Ómanflóa hefur verið bjargað eftir að sprengingar urðu í skipunum tveimur. Alls 44 áhafnarmeðlimum var bjargað. Grunur leikur á að ráðist hafi verið á skipin.Íranska landhelgisgæslan bjargaði fólkinu samkvæmt ríkisfjölmiðli Írans sem segir að um slys hafi verið að ræða. Orsök sprenginganna hefur þó ekki fengist staðfest, samkvæmt frétt BBC af málinu. Bandarískt herskip tók einnig þátt í björgunaraðgerðunum.Aðeins mánuður er síðan ráðist var á fjögur olíuskip undan ströndum Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Bandaríkin sökuðu Írani um að standa á bak við þær árásir en stjórnvöld í Íran hafa neitað því statt og staðfastlega.Josh Frey hjá fimmta flota bandaríska sjóhersins segir í yfirlýsingu að sjóhernum hafi borist tvö neyðarköll vegna málsins, það fyrra klukkan 06:12 að staðartíma en það seinna tæpum 50 mínútum síðar og að herskipið USS Bainbridge hefði haldið til móts við skipin tvö.Íranska fréttastöðin IRIB birti í dag færslu með mynd sem sögð er vera af öðru skipinu, Front Altair, þar sem það brennur og sjá má stóran reykjarmökk stíga upp til himins.

Annað skipið mögulega hæft með tundurskeyti

Talsmaður CPC Corp, taívansks ríkisfyrirtækis sem fer með eldsneytismálefni í Taívan og var með annað skipanna sem um ræðir, Front Altair, á leigu, segir 75 þúsund tonn af eldsneyti hafa verið um borð í skipinu og segir grun leika á að skipið hafi verið hæft með tundurskeyti.Hann segir öllum áhafnarmeðlimum skipsins hafa verið bjargað. Skipið er í eigu norska fyrirtækisins Frontline.Fyrirtækið sem gerði út hitt skipið, Kokuka Courageous, segir áhöfn þess hafa verið bjargað af skipi sem átti leið hjá. Skipið hafi verið við flutninga á metanóli og að ekki væri hætta á að það myndi sökkva.Ríkismiðlar í Íran segja skipverja hafa verið flutta til hafnar í bænum Jask í suður Íran.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.