Erlent

Sara Netanjahú játaði að hafa misnotað ríkisfé

Sylvía Hall skrifar
Sara Netanjahú hefur verið gift forsætisráðherranum í 28 ár.
Sara Netanjahú hefur verið gift forsætisráðherranum í 28 ár. Vísir/Getty
Sara Netanjahú, eiginkona Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels, játaði aðild sína í spillingarmáli í dómsal í dag. Málið snýst um misnotkun á ríkisfé sem hún notaði til þess að greiða fyrir máltíðir. Reuters greinir frá.

Eiginkona forsætisráðherrans er sögð hafa notað meira en hundrað þúsund Bandaríkjadala í máltíðir en það samsvarar hátt í þrettán milljónum íslenskra króna. Játaði hún brot sín skýlaust fyrir dómi í skiptum fyrir vægari refsingu.

Sara Netanjahú mun ekki þurfa að afplána fangelsisdóm vegna málsins en í staðinn greiðir hún um fimmtán þúsund Bandaríkjadali í sekt. Þetta var hluti af samkomulagi sem var gert við saksóknara í málinu.

Dómarinn spurði hvort hún gerði sér grein fyrir því hvað hún væri að játa þegar dómur var kveðinn upp í dag og svaraði hún játandi. Hún hafði einnig verið sökuð um alvarlegri svik en þau mál voru látin niður falla í skiptum fyrir játninguna.

Ríkissaksóknari í Ísrael hefur gefið það út að hann muni leggja fram ákæru á hendur Benjamín Netanjahú fyrir mútur og skjalasvik en það mál verður tekið fyrir í október, aðeins tveimur vikum eftir kosningar í landinu sem boðað var til eftir að Netanjahú náði ekki að mynda nýja ríkisstjórn.


Tengdar fréttir

Boðað til nýrra kosninga í Ísrael

Meirihluta ísraelska þingsins samþykkti í kvöld að leysa upp þingið og að boðað skyldi til nýrra kosninga í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×