Erlent

Frestur Netanjahú til að mynda ríkisstjórn að renna út

Kjartan Kjartansson skrifar
Netanjahú hótaði að leysa upp þingið gefi einn væntanlegra samstarfsflokka í ríkisstjórn ekki eftir.
Netanjahú hótaði að leysa upp þingið gefi einn væntanlegra samstarfsflokka í ríkisstjórn ekki eftir. Vísir/EPA

Kjósa þarf aftur í Ísrael takist ekki að mynda nýja ríkisstjórn þar áður en morgundagurinn er liðinn. Donald Trump Bandaríkjaforseti blandaði sér í stjórnarmyndunarviðræðurnar í gær þegar hann lýsti sérstökum stuðningi við Benjamín Netanjahú og Líkúdflokk hans.

Ríkisstjórn Netanjahú hélt velli í þingkosningum í byrjun apríl þrátt fyrir að hann eigi yfir höfði sér ákæru fyrir spillingu í embætti. Líkúdflokkurinn fékk flest sæti á þinginu og hefði ríkisstjórn hefðbundinna bandalagsflokka hans tíu sæta meirihluta.

Erfiðlega hefur þó gengið að koma ríkisstjórninni saman og þurfti Netanjahú nýlega að óska eftir fresti hjá Reuven Rivlin forseta til að mynda ríkisstjórn til 29. maí.

Í sjónvarpsávarpi í gær kenndi Netanjahú Avigdor Lieberman, fyrrverandi varnarmálaráðherra og leiðtoga Yisrael Beiteinu-flokksins, um þráteflið og hvatti hann til að setja hagsmuni þjóðarinnar ofar öðrum. Liberman vill að strangtrúaðir gyðingar geti verið kallaðir upp í herinn eins og aðrir ungir karlar. Því hafa strangtrúaðir bandamenn Netanjahú mótmælt.

Þingið samþykkti ályktun í gær um að það skuli leyst upp liggi samkomulag um myndun ríkisstjórnar ekki fyrir seint á morgun, að sögn AP-fréttastofunnar. Þá þyrftu Ísraelar að ganga aftur til kosninga.

Trump Bandaríkjaforseti hlutaðist um stjórnarmyndunina í gær þegar hann tísti stuðningi við Netanjahú.

„Vona að hlutirnir gangi upp í stjórnarmyndunarviðræðum í Ísrael og að Bibi [Netanjahú] og ég getum haldið áfram að gera bandalagið á milli Bandaríkjanna og Ísraels sterkar en nokkru sinni áður. Margt er enn ógert!“ tísti Trump.Í kosningabaráttunni veitti Trump vini sínum Netanjahú einnig stóran sigur aðeins tveimur vikum fyrir kjördag þegar hann lýsti því yfir að Bandaríkjastjórn myndu viðurkenna yfirráð Ísraels yfir Gólanhæðum í Sýrlandi. Ísraelar hertóku landsvæðið í sex daga stríðinu árið 1967 og hafa í reynd innlimað það.

Netanjahú hefur verið umsetinn undanfarna mánuði. Fyrr á þessu ári kom í ljós að ríkissaksóknari ætlaði að ákæra forsætisráðherrann fyrir spillingu. Netanjahú er meðal annars sakaður um að hafa þegið mútur og gefið pólitíska greiða gegn hagfelldri fjölmiðlaumfjöllun.

Tugir þúsunda manna mótmæltu tilraunum Netanjahú til að tryggja sér friðhelgi fyrir ákæru á götum Tel Aviv á laugardagskvöld. Fyrir tveimur vikum freistaði Netanjahú þess að gera bindandi samkomulag við væntanlega samstarfsflokka í ríkisstjórn um frumvarp sem hefði gefið honum friðhelgi fyrir saksókn á meðan hann er í embætti.

Áætlað er að um 50.000 manns hafi tekið þátt í mótmælum gegn Netanjahú í Tel Aviv á laugardag. Vísir/EPA

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.