Enski boltinn

Metáhugi á ársmiðunum hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skorar hér á Old Trafford á síðasta tímabili.
Gylfi Þór Sigurðsson skorar hér á Old Trafford á síðasta tímabili. Getty/Charlotte Wilson
Manchester United vann kannski bara tvo af síðustu tíu leikjum sínum á tímabilinu en stuðningsmenn félagsins ætla ekki hoppa frá borði.

Ársmiðar á heimaleiki United á Old Trafford á næstu leiktíð seldust upp á mettíma.

Versta tímabil Manchester United í sögu ensku úrvalsdeildarinnar breytir ekki því að stuðningsmenn félagsins eru mjög bjartsýnir og áhugasamir um næstu leiktíð.

Þetta verður fyrsta heila tímabil Ole Gunnar Solskjær með United liðið og það er von á miklum breytingum á leikmannahópnum í sumar.



Ole Gunnar fær það verkefni að byggja upp nýtt lið og það gæti tekið sinn tíma. Hvort að það takist hjá honum eða að hann fái nægjanlega þolinmæði frá forráðamönnum félagsins verður að koma í ljós.

Miðað við áhugann á miðum á leiki liðsins á tímabilinu 2019-20 þá er hugur í stuðningsmönnunum fyrir komandi tímabil.

Alls voru 52 þúsund ársmiðar í boði og þeir hafa aldrei farið jafn fljótt samkvæmt frétt á Daily Mail.

Old Trafford er stærsti leikvangurinn í ensku úrvalsdeildinni og tekur alls 76 þúsund manns í sæti.

Manchester United ætlar líka að laga leikvanginn fyrir 3 milljónir punda í sumar en á næstu fimm árum munu öllum sætum vallarins vera skipt út og þau endurnýjuð.

Manchester United endaði 32 stigum á eftir nágrönnum sínum í Manchester City sem unnu ensku deildina annað árið í röð.

Með því að enda í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar þá missti United af sæti í Meistaradeildinni og tekur þess í stað þátt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×