Enski boltinn

Hefur ekki spilað með Villa í 615 daga en fær ríflega launahækkun eftir að liðið komst upp

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
McCormack hefur ekki leikið deildarleik fyrir Aston Villa í rúm tvö ár.
McCormack hefur ekki leikið deildarleik fyrir Aston Villa í rúm tvö ár. vísir/getty
Sigur Aston Villa á Derby County í úrslitaleik umspils um sæti í ensku úrvalsdeildinni í gær hefur góð áhrif á fjárhag skoska framherjans Ross McCormack.

Sökum þess að Villa komst upp í ensku úrvalsdeildina fær McCormack ríflega launahækkun. Mirror greinir frá því að Skotinn fái nú 70.000 pund í vikulaun hjá Villa.

Það er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að McCormack hefur ekki leikið með Villa frá haustinu 2017, eða í 615 daga.

Síðan þá hefur hann verið hér og þar á láni; hjá Nottinham Forest í Englandi, Melbourne City og Central Coast Mariners í Ástralíu og Motherwell í Skotlandi.

Villa keypti McCormack frá Fulham fyrir tólf milljónir punda í ágúst 2016. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið. Skotinn á enn eitt ár eftir af þeim samningi.

McCormack hefur aðeins leikið 24 leiki með Villa og skorað þrjú mörk. Steve Bruce, þáverandi knattspyrnustjóri Villa, tók hann út úr leikmannahópi liðsins eftir að hann mætti ekki á æfingar.

McCormack er ekki eini leikmaður Villa sem fær launahækkun þrátt fyrir að hafa nánast ekkert spilað með liðinu. Meðal annarra má nefna Gary Gardner, Scott Hogan og Henri Lansbury.

Randy Lerner, fyrrverandi eigandi Villa, græddi líka vel á sigrinum í gær. Hann fær 30 milljónir punda í sinn hlut og tíu milljónir til viðbótar ef Villa heldur sér í ensku úrvalsdeildinni næstu tvö tímabil.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×