Aston Villa upp í ensku úrvalsdeildina á ný og Birkir græðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anwar El Ghazi fagnar marki sínu.
Anwar El Ghazi fagnar marki sínu. Getty/Mike Hewitt
Aston Villa tryggði sér í dag sæti í ensku úrvalsdeildinni með 2-1 sigri á Derby County í hreinum úrslitaleik á Wembley leikvaningum um síðasta sætið í deildinni tímabilið 2019-20.

Aston Villa var lengstum miklu betra liðið en síðustu mínútur leiksins reyndu mikið á taugar Villa manna eftir að Derby náði að minnka muninn.

Aston Villa fer upp ásamt Norwich City og Sheffield United en þessi þrjú lið taka sæti Cardiff City, Fulham og Huddersfield.

Aston Villa mætti reynslunni ríkari frá því í fyrra þegar liðið tapaði fyrir Fulham í samskonar leik. Þessi sigur Villa er metin á 170 milljónir punda fyrir félagið eða 27 milljarða íslenskra króna.

Birkir Bjarnason er leikmaður Aston Villa en fékk ekki að vera með í hópnum í þessum leik. Hann fékk hins vegar fína afmælisgjöf frá liðsfélögum sínum því allir leikmenn Aston Villa fá vænan bónus fyrir að tryggja liðinu sæti meðal þeirra bestu.

Aston Villa var síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2015-16 en liðið spilaði í þrjú tímabil í b-deildinni. Derby County er aftur á móti búið að vera þar síðan að liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni vorið 2008.

Aston Villa var miklu betra liðið frá fyrstu mínútu og vann sannfærandi og sanngjarnan sigur. Villa menn þurftu reyndar að bíða eftir fyrsta markinu sem kom ekki fyrr en á 44. mínútu.

Anwar El Ghazi skoraði fyrsta markið með skalla eftir fyrirgjöf Ahmed Elmohamady frá hægri. Annað markið skoraði John McGinn með skalla eftir stór mistök Kelle Roos í marki Derby.

El Ghazi átti þá skot sem fór af varnarmanni og hinn smávaxni McGinn skallaði boltann nánast úr höndunum á seinheppnum markverði Derby liðsins.

Derby minnkaði muninn á 77. mínútu þegar varamaðurinn Jack Marriott skaut í liðsfélaga sinn Martyn Waghorn og í markið.

Derby liðið pressaði talsvert undir lok leiksins en liðsmenn Aston Villa héldu út og fögnuðu síðan gríðarlega í leikslok.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira