Enski boltinn

Fyrrverandi eigandi Villa fær tæpa fimm milljarða ef liðið kemst upp í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lerner var eigandi Aston Villa á árunum 2006-16.
Lerner var eigandi Aston Villa á árunum 2006-16. vísir/getty

Hjarta Randys Lerner, fyrrverandi eiganda Aston Villa, slær væntanlega hratt á meðan leik liðsins gegn Derby County í umspili um sæti í ensku úrvalsdeildinni stendur í dag.

Lerner fær nefnilega væna summu ef Villa vinnur á Wembley og kemst upp í ensku úrvalsdeildina.

Þegar Lerner seldi Villa til Tony Xia 2016 setti hann þann viðauka með að hann fengi 30 milljónir punda ef liðið færi upp í ensku úrvalsdeildina innan þriggja ára. Daily Mail greinir frá.

Ekki nóg með það heldur fær Lerner tíu milljónir punda í sinn hlut ef Villa heldur sér uppi í tvö tímabil. Bandaríkjamaðurinn gæti því fengið 40 milljónir punda, eða rúma sex milljarða íslenskra króna, ef allt gengur að óskum.

Mikið er undir í úrslitaleiknum á Wembley; ekki bara úrvalsdeildarsæti heldur 170 milljónir punda. Það er meira en lið fá fyrir að vinna Meistaradeild Evrópu og Ofurskálina.

Enskir fjölmiðlar greina einnig frá því að ef Villa fari upp skipti leikmenn liðsins með sér tíu milljóna punda bónus. Ef Derby vinnur skipta leikmennirnir með sér sex milljónum punda.

Villa lék síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2015-16. Derby var síðast uppi tímabilið 2007-08. Þá fékk liðið aðeins ellefu stig og féll með stæl. Ekkert lið hefur fengið færri stig á einu tímabili í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Leikur Aston Villa og Derby County hefst klukkan 14:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.