Enski boltinn

Afmælisbarnið frá Íslandi fær ekki að vera í hóp á Wembley í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. Getty/Neville Williams
Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason fær ekki að taka þátt í leiknum mikilvæga á Wembley í dag þegar lið hans Aston Villa getur tryggt sér sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Aston Villa mætir Derby County á Wembley klukkan 14.00 og sigurvegarinn í þessum leik fylgir Norwich og Sheffield United upp í ensku úrvalsdeildina.

Birkir er utan hóps á Wembley í dag en hann heldur upp á afmælið sitt í dag. Birkir er fæddur 27. maí 1988 og er því 31 árs í dag.

Birkir hefur spilað 17 leiki með Aston Villa í ensku b-deildinni á þessari leiktíð og spilað alls í 928 mínútur. Á þessum rúmu 900 mínútum hefur hann skorað tvö mörk.

Birkir var ekki í hópnum í undanúrslitaleikjunum á móti West Bromwich Albion en þar vann Aston Villa eftir vítaspyrnukeppni í seinni leiknum. Birkir hafði verið í hóp í síðustu fimm deildarleikjunum þar undan en var settur út fyrir úrslitakeppnina.

Birkir kom síðast við sögu hjá Aston Villa í leik á móti Norwich í lokaumferðinni. Birkir kom þá inn á í tíu mínútur sem jafnframt voru hans fyrstu mínútur síðan í mars. Birkir hefur ekki byrjað leik hjá Aston Villa síðan 19. janúar.

Samningur Birkis við Aston Villa er til 30. júní 2020 og á hann því eitt ár eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×