Erlent

Ríkisstjóri staðfestir stranga þungunarrofslöggjöf Alabama

Kjartan Kjartansson skrifar
Ivey ríkisstjóri skrifar undir lögin. Þungunarrof verður nú með nær öllu bannað í Alabama.
Ivey ríkisstjóri skrifar undir lögin. Þungunarrof verður nú með nær öllu bannað í Alabama. Vísir/AP
Kay Ivey, ríkisstjóri Alabama í Bandaríkjunum, staðfesti í kvöld ný lög um þungunarrof sem ríkisþingið samþykkti í gær. Þar með verður Alabama með ströngustu þungunarrofslöggjöf Bandaríkjanna sem bannar það í nær öllum tilfellum.

Eina tilvikið þar sem konur mega gangast undir þungunarrof samkvæmt nýju lögunum er þegar líf þeirra er í verulegri hættu. Þingmenn repúblikana, sem eru með meirihluta í báðum deildum ríkisþings Alabama, höfnuðu því að hafa undaþágur í tilfellum sifjaspells eða nauðgana. Læknar sem framkvæma þungunarrof eiga jafnframt yfir höfði sér allt að 99 ára fangelsi.

„Fyrir þeim mörgu stuðningsmönnum frumvarpsins eru þessi lög öflugt vitni um djúpstæða trú Alabamabúa á að hvert líf sé dýrmætt og að hvert líf sé heilög gjöf frá guði,“ sagði Ivey ríkisstjóri, sem einnig er repúblikani, eftir að hún staðfesti lögin með undirskrift sinni.

Réttindasamtök hafa þegar boðað að þau muni reyna að fá lögin felld fyrir dómstólum. Fylgjendur laganna eru raunar taldir stóla á það þar sem þeir vilji að málið fari alla leið fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna. Þar treysta þeir á að íhaldssamir dómarar, sem mynda meirihluta í dómnum, snúi við dómafordæmi sem hefur verið grundvöllur réttar kvenna til þungunarrofs frá árinu 1974.


Tengdar fréttir

Þungunarrofslöggjöfin stranga í Alabama hluti af stærri mynd

Ríkisþingið í Alabama í Bandaríkjunum samþykkti í gær einhverja ströngustu þungunarrofslöggjöf sem fyrirfinnst í landinu. Löggjöfin bannar konum í öllum tilfellum að fara í fóstureyðingu nema að heilsu þeirra sé ógnað. Stjórnmálafræðingur segir þetta liður í stærra púsli til að hnekkja löggjöfinni fyrir hæstarétti Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×