Enski boltinn

Pogba: Tvö tímabil í röð án bikars er ekki gott

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pogba í baráttunni við Gylfa í leiknum á sunnudaginn.
Pogba í baráttunni við Gylfa í leiknum á sunnudaginn. vísir/getty
Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, er spenntur fyrir verkefninu sem bíður United annað kvöld en þeir mæta Manchester City í grannaslag á Old Trafford annað kvöld.

United var niðurlægt af Everton á sunnudaginn og þarf heldur betur að bæta leik sinn ef ekki illa á að fara gegn grönnunum annað kvöld.

Á svipuðum tíma í fyrra unnu United 3-2 sigur í leik liðanna en Pogba segir að nú sé staðan önnur. Liverpool andi ofan í hálsmálið á City og þeir þurfi sigur.

„Ég myndi ekki segja að þetta væri sama staða og fyrir ári síðan því nú þurfa þeir einnig að vinna. Þeir þurfa sigur og það sama gildir um okkur,“ sagði Pogba í samtali við Sky Sports.

„Við erum bæði í baráttunni um eitthvað. Þeir eru í baráttunni um titilinn og við í baráttunni um þriðja eða fjórða sætið svo þetta verður erfiður en mikilvægur leikur.“

„Rígurinn hefur alltaf verið. Þegar ég var í átján ára liðinu og við vorum að fara spila gegn City þá var rígurinn þarna. Þú spilar fyrir treyjuna og þú vilt bara vinna leikinn.“

„Þú getur séð að spennustigið er hátt og það er æðislegt að spila í þessum leikjum því þú færð reynsluna, ert með fólkið á bakvið þig og þau ýta á þig. Þetta er aðeins frábrugðið öðrum leikjum.“

Pogba segir að honum líki vel að spila þessa stórleiki og það er tilhlökkun í honum að komast aftur á völlinn eftir niðurlæginguna gegn Everton.

„Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá elska ég að spila gegn topp liðum með topp leikmönnum. Þetta eru leikir sem ég elska að spila og ég læri mikið af þessum leikjum. Ég vil spila vel gegn þessum liðum og vill vinna.“

„Auðvitað myndum við verða vonsviknir ef við myndum ekki enda í topp fjórum. Tvö tímabil í röð án bikars er ekki gott. Við erum Manchester United og spilum fyrir bikara. Við unnum ekkert á síðasta ári og ef við komumst ekki í topp fjögur sætin eru það mikil vonbrigði. Það er ekki gott fyrir félagið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×