Enski boltinn

Liverpool vann City í úrslitaleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool-strákarnir fagna bikarmeistaratitlinum.
Liverpool-strákarnir fagna bikarmeistaratitlinum. vísir/getty
Liverpool varð í gær bikarmeistari unglinga eftir sigur á Manchester City í vítaspyrnukeppni, 5-3. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 1-1.

Þessi lið heyja harða baráttu um Englandsmeistaratitilinn og stuðningsmenn Liverpool vonast væntanlega eftir því að sigur strákanna á City í gær sé fyrirboði um það sem koma skal í maí.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, var í stúkunni í gær og fylgdist með guttunum spila.

Nabil Touaizi kom City yfir skömmu fyrir hálfleik og markið virtist ætla að duga Manchester-liðinu til sigurs. En þegar fjórar mínútur voru til leiksloka jafnaði Bobby Duncan, frændi Stevens Gerrard, með skoti beint úr aukaspyrnu.

Leikmenn Liverpool nýttu allar sínar spyrnur í vítakeppninni en City-maðurinn Cole Palmer skaut í slá.

Þetta er í fyrsta sinn í tólf ár og í fjórða sinn alls sem Liverpool vinnur þessa keppni.

Liverpool mætir botnliði Huddersfield Town í fyrsta leik 36. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Með sigri kemst Liverpool á topp deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×