Erlent

Fimmtán látnir eftir skotbardaga á Srí Lanka

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikill viðbúnaður hefur verið á Srí Lanka eftir hryðjuverkin mannskæðu á páskadag.
Mikill viðbúnaður hefur verið á Srí Lanka eftir hryðjuverkin mannskæðu á páskadag. Vísir/EPA
Lík fimmtán manna, þar af sex barna, fundust á vettvangi skotbardaga á milli hermanna og íslamskra vígamanna á Srí Lanka sem geisaði í nótt. Lögreglan á eyjunni segir að þrír grunaðir hryðjuverkamenn séu á meðal þeirra föllnu.

Skotbardaginn braust út í Sainhamaruthu í Ampara-hverfi, suður af bænum Batticaloa sem varð fyrir barðinu á hryðjuverkaárásum íslamskra öfgamanna á páskadag, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Sjálfsmorðsárásarmenn sprengdu sig þá upp í þremur kirkjum og fjórum munaðarhótelum með þeim afleiðingum að um 250 manns létust, þar á meðal erlendir ferðamenn.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að sprengja hafi sprungið áður en skotbardaginn hófst. Talið er að börnin þrjú og þrjár konur sem fundust einnig látnar séu fjölskyldur grunaðra öfgamanna. Óbreyttir borgarar eru einnig taldir hafa fallið í hildarleiknum.

Lögreglan segir að við húsleit annars staðar hafi hún fundið sprengiefni og dróna. Á annað hundrað öfgamanna með tengsl við Ríki íslams gætu enn gengið lausir í landinu.

Stjórnvöld á Srí Lanka hafa kennt öfgasamtökum íslamista NTJ um hryðjuverkin á páskadag en Ríki íslams hefur einnig lýst yfir ábyrgð á voðaverkunum. Talið er að höfuðpaurinn hafi fallið í árásunum um síðustu helgi.


Tengdar fréttir

Viðurkenna mistök sín

Að minnsta kosti 359 fórust í árásunum og rúmlega fimm hundruð særðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×