Sterling með tvö er City komst aftur á toppinn

Dagur Lárusson skrifar
Sterling var í stuði.
Sterling var í stuði. vísir/getty
Raheem Sterling var í stuði í 3-1 sigri Manchester City á Crystal Palace í dag en hann skoraði tvö mörk.

 

Fyrir leikinn var Manchester City í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Liverpool en höfðu spilað einum leik minna.

 

Liðsmenn Manchester City réðu lögum og lofum í fyrri hálfleiknum og sköpuðu mikið af færum og þar á meðal eitt á fyrstu mínútunum sem var dauðafæri fyrir Raheem Sterling sem skaut framhjá.

 

Fyrsta mark leiksins kom síðan á fimmtándu mínútu þegar Kevin De Bruyne fékk boltann á miðjunni og gaf frábæra stungusendingu inn á Raheem Sterling sem afgreiddi boltann í netið og var þetta eina mark fyrri hálfleiksins.

 

Í seinni hálfleiknum héldu City menn áfram að sækja og gáfu Palace lítið af færum. Á 63. mínútu skoraði síðan Raheem Sterling annað mark sitt og City með laglegri afgreiðslu og allt stefndi því í þægilegan sigur City.

 

Það dróg hinsvegar til tíðinda á 81. mínútu þegar Laporte braut af sér rétt fyrir utan vítateig City og fékk Crystal Palace aukaspyrnu. Luka Miljivojevic tók spyrnuna og skoraði framhjá Ederson og hleypti því lífi í leikinn á ný.

 

Liðsmenn Palace reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en náðu því ekki en Gabriel Jesus náði hinsvegar að koma City í 3-1 í uppbótartíma eftir undirbúning De Bruyne og sigur City því öruggur.

Eftir leikinn er City því komið á toppinn, einu stigi á undan Liverpool sem spilar við Chelsea innan skamms.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira