Enski boltinn

Tæki Mane fram yfir Salah á lokametrunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Er Mane mikilvægari leikmaður en Salah?
Er Mane mikilvægari leikmaður en Salah? vísir/getty
Sadio Mane hefur verið einn af bestu mönnum Liverpool í vetur og er hann orðinn svo mikilvægur að Jamie Carragher vildi heldur halda Mane en Mohamed Salah í síðustu leikjum titilbaráttunnar.

Mane er með 18 mörk í deildinni í vetur og er næstmarkahæstur á eftir þeim Sergio Aguero og Salah sem eru með 19 mörk hvor.

Sérfræðingar Monday Night Football á Sky Sports ræddu frammistöðu Mane og mikilvægi hans í Liverpool. Þeirra á meðal var gamli Liverpoolmaðurinn Jamie Carragher.

„Þetta snýst ekki bara um fjölda markanna sem hann skorar heldur mikilvægi markanna,“ sagði Carragher.

„Mikilvægasta markið í hverjum leik er fyrsta markið, lið tapa sjaldan leikjum úr þeirri stöðu.“

Sky tók saman tölfræði yfir síðustu ellefu leiki Liverpool, fyrir utan leiki sem hafa endað 0-0. Þar skorar Mane fyrsta markið í sjö leikjum, tvisvar skoraði andstæðingurinn og í tveimur leikjum var það einhver annar en Mane sem opnaði markareikninginn fyrir Liverpool.

Síðustu 11 leikir Liverpool, fyrir utan 0-0 jafntefli.mynd/sky sports
„Það skiptir engu máli ef þú skorar mörk þegar liðið er að vinna 4-0. Mane skorar mikilvæg mörk,“ sagði Carragher en Mane skoraði til dæmis fyrra mark Liverpool í stórleiknum við Chelsea um helgina.

Carragher var spurður að því hvort hann myndi frekar sleppa Mane eða Salah í síðustu leikjunum á tímabilinu, þar sem Liverpool er í harðri baráttu um Englandsmeistaratitilinn.

„Salah. Þeir skora jafn mörg mörk og ég er mikill stuðningsmaður Mane.“

„Fólk talar um hversu mikilvægt það var að fá Salah og Van Dijk en Mane var sá sem kom Liverpool aftur upp í toppbaráttuna. Hann var fyrsta stóra nafnið sem Klopp fékk til Liverpool og hann kom þeim aftur á meðal fjögurra efstu.“

„Hann er búinn að vera þarna frá upphafi upprisunnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×