Enski boltinn

Leikmenn hætta á samfélagsmiðlum í sólarhring til að mótmæla rasisma

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Troy Deeney
Troy Deeney vísir/getty
Fótboltamenn á Englandi og í Wales ætla að hunsa samfélagsmiðla í sólarhring til þess að mótmæla aðgerðarleysi samfélagsmiðla og fótboltayfirvalda í tengslum við kynþáttaníð.

Það hefur verið nokkuð mikið um kynþáttaníð í Evrópufótboltanum í vetur og síðasta dæmið kom upp í vikunni þegar Ashley Young mátti þola kynþáttaníð á Twitter.

Fyrirliði Watford, Troy Deeney sagði að „nú er komið nóg.“

„Á föstudag ætlum við að senda skilaboð til allra þeirra sem níðast á leikmönnum, eða níðast á hverjum sem er, að við munum ekki líða þetta innan fótboltans.“

„Þetta er bara eitt lítið skref en leikmennirnir eru að byrja að tala gegn þessu með einni sameiginlegri rödd.“

Deeney hefur haft lokað fyrir athugasemdir á Instagramsíðu sinni eftir að hann fékk niðrandi athugasemdir þar.

Leikmenn hafa verið hvattir til þess að setja mynd með #Enough á samfélagsmiðla áður en þeir hætta á samfélagsmiðlum klukkan 9 í fyrramálið á breskum tíma.

„Það er kominn tími til þess að Twitter, Instagram og Facebook hugsi um að breyta reglunum sínum og taki ábyrgð á því að vernda geðheilsu notenda,“ sagði Chris Smalling, varnarmaður Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×