Enski boltinn

Warnock: Of margir dómarar eins og vélmenni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Warnock var öllum lokið eftir tapið fyrir Chelsea.
Warnock var öllum lokið eftir tapið fyrir Chelsea. vísir/getty
Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff City, var æfur út í dómarana eftir sárt tap liðsins fyrir Chelsea á sunnudaginn. Honum er ekki runnin reiðin og á blaðamannafundi í dag hélt hann áfram að úthúða enskum dómurum og dómarayfirvöldum á Englandi.

Mike Riley, sem dæmdi lengi í ensku úrvalsdeildinni, er yfirmaður dómaramála á Englandi í dag. Warnock hefur lítið álit á honum og segir að of margir dómarar í ensku úrvalsdeildinni séu líkir honum.

„Mér fannst Riley alltaf dæma eins og vélmenni. Hann kann reglurnar upp á tíu en þessir menn skilja ekki leikinn og mannlega þáttinn. Margir dómarar eru eins og Riley og þess vegna hefur dómgæslunni farið aftur. Það er ekki pláss fyrir heilbrigða skynsemi en bestu dómararnir beita henni samt,“ sagði Warnock.

Riley er ekki á jólakortalistanum hjá Warnock-fjölskyldunni.vísir/getty
Hann var ekki sá eini í fjölskyldunni sem var ósáttur með dómgæsluna gegn Chelsea. Eiginkona hans bölvaði dómurunum líka og Warnock grínaðist með að hann hefði sektað hana um vikulaun vegna ummæla hennar.

„Ég sektaði hana. Ég sagði henni að hún yrði að róa sig. Annars þyrfti ég að tilkynna hana til enska knattspyrnusambandsins. Ég get samt ímyndað mér að hún hafi sagt það sama og 30.000 stuðningsmenn Cardiff. Það gat ég ekki sætt mig við og því sektaði ég hana,“ sagði Warnock í léttum dúr.

Cardiff bíður afar erfitt verkefni annað kvöld þegar liðið sækir Manchester City heim. Englandsmeistararnir hafa unnið 20 leiki af síðustu 21 í öllum keppnum. 

Staða Cardiff er strembin. Liðið er fimm stigum frá öruggu sæti og á aðeins sjö leiki eftir. Strákarnir hans Warnocks hafa tapað þremur leikjum í röð.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×