Enski boltinn

Van Dijk kaus Raheem Sterling sem leikmann ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk og Raheem Sterling í baráttunni í leik liðanna á tímabilinu.
Virgil van Dijk og Raheem Sterling í baráttunni í leik liðanna á tímabilinu. Getty/Alex Livesey
Manchester City og Liverpool eru ekki aðeins að berjast innbyrðis um Englandsmeistaratitilinn því leikmenn liðanna eru einnig að keppa um það að vera kosinn leikmaður ársins.

Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, kemur þar sterklega til greina eftir frábært tímabil í vörn Liverpool liðsins en hann fær örugglega mikla keppni frá gömlum Liverpool manni. Raheem Sterling hefur nefnilega átt magnað tímabil með liði Manchester City.

Ein stærstu verðlaununum eru kjör leikmannanna sjálfra á besta leikmanni tímabilsins. Virgil van Dijk var á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool á móti Porto í Meistaradeildinni í kvöld og sagði þar frá sínu vali.





Virgil van Dijk sagðist hafa kosið Raheem Sterling besta leikmann tímabilsins. „Ég fór eftir minni sannfæringu og mér fannst hann eiga þetta skilið,“ sagði Van Dijk um sitt val.

„Hann hefur átt frábært tímabil. Ég hefði líka getað kosið Bernardo Silva líka sem og nokkra aðra leikmenn hjá City-liðinu,“ sagði Van Dijk.

„Ég er bara hreinskilinn og sanngjarn. Mér finnst hann hafa bætt sig mikið sem leikmaður. Við sjáum síðan til hvort hanni vinni þetta,“ sagði Van Dijk.

En hvað með titilbaráttuna við Manchester City liðið. Liverpool náði aftur toppsætinu með endurkomusigri á móti Southampton um síðustu helgi.

„Ég held að öll önnur lið í deildinni myndu elska það að vera í okkar stöðu. Við erum í mjög góðri stöðu. Þetta gæti vissulega hafa verið enn betra hjá okkur en svona er staðan núna. Við eigum enn möguleika á því að vinna titilinn og eigum enn möguleika á því að vinna Meistaradeildina,“ sagði Virgil van Dijk.

Verðlaunin fyrir leikmann ársins, kosinn af leikmönnunum sjálfum, verða afhent sunnudaginn 28. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×