Erlent

Sádar sviptu son bin Laden ríkisborgararétti

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekki er vitað hvar Hamza bin Laden er niðurkominn.
Ekki er vitað hvar Hamza bin Laden er niðurkominn. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna
Yfirvöld Sádi-Arabíu hafa svipt Hamza bin Ladaen, son Osama bin laden, ríkisborgararétti. Sú ákvörðun mun hafa verið tekin í nóvember en hún var fyrst tilkynnt í dag. Það var gert í kjölfar þess að Bandaríkin settu milljón dala til höfuðs Hamza sem talið er að haldi til á landamærum Afganistan og Pakistan. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna kallaði Hamza háttsettan aðila innan al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna.

Talið er að Hamza sé um það bil þrítugur en hann var við hlið föður síns í Afganistan á árum áður. Fyrir árásir hryðjuverkasamtakanna í Bandaríkjunum í september 2001. Eftir innrás Bandaríkjanna í Afganistan er talið að hann hafi flúið til Pakistan með föður sínum.

Ayman al-Zawahiri, leiðtogi al-Qaeda kynnti Hamza á hljóðupptöku árið 2015 og síðan þá hefur hann kallað eftir hryðjuverkaárásum í höfuðborgum vestrænna ríkja og heitið hefndum vegna föður síns, sem var skotinn til bana af Bandarískum sérsveitarmönnum í Pakistan árið 2011.

Samkvæmt Reuters er talið að Hamza hafi þá verið í stofufangelsi í Íran. Skjöl sem fundust á heimili Osama eru sögð sýna fram á að bandamenn hans hafi verið að reyna að fá Hamza úr haldi.



Hamza mun einnig ógna konungsfjölskyldu Sádi-Arabíu en hann hefur kallað eftir því að ættbálkar ríkisins sameinist með al-Qaeda í Jemen og berjist gegn Sádi-Arabíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×