Erlent

Bjóða milljón dali fyrir son Osama bin Laden

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekki er vitað hvar Hamza bin Laden er niðurkominn.
Ekki er vitað hvar Hamza bin Laden er niðurkominn. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna
Bandaríkjastjórn hefur sett eina milljón bandaríkjadala til höfuðs Hamza bin Laden. Hann er sonur hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Laden sem sagður er hafa skipulagt árásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001.

Talið er að sonurinn haldi til í landamærahéruðum Afganistans og Pakistans og óttast menn að hann sé að verða nýr leiðtogi al-Kaída samtakanna. Síðustu misserin hefur Hamza sent frá sér myndbönd og hljóðupptökur þar sem hann hvetur fylgjendur sína til að gera árásir á Bandaríkin og bandamenn þeirra, til að hefna fyrir morðið á Osama bin Laden. Sérsveit bandaríska hersins drap Osama í Pakistan árið 2011 en sonur hans Hamza er talinn vera þrítugur.

Bandarísk stjórnvöld skilgreindu Hamza sem hryðjuverkmann fyrir tveimur árum. Hann er talinn hafa gifst dóttur Mohammed Atta, eins árásarmannanna sem rændi farþegaþotu og flaug henni á Tvíburaturnana árið 2001.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir að bréf sem fundust í fórum Osama bin Laden, þegar hendur voru hafðar í hári hans í Abbottabad í Pakistan, bendi til að hryðjuverkaleiðtoginn hafi verið að þjálfa Hamza til að taka við af sér sem leiðtogi al-Kaída.

Ekki er vitað nákvæmlega hvar Hamza er niðurkominn en talið er að hann hafi búið í Íran, Pakistan, Afganistan og Sýrland á undanförnum árum. „Hann gæti verið hvar sem er í suðurhluta Mið-Asíu,“ er haft eftir embættismanni í bandarísku utanríkisþjónustunni. Sem fyrr segir eru þó mestar líkur taldar á að Hamza sé einhvers staðar við landamæri Pakistan og Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×