Erlent

Segir Cohen mögulega hafa skemmt fund hans og Kim

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Jose Luis Magana
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir vitnisburð Michael Cohen, fyrrverandi lögmanns hans til áratugar, hafa „mögulega“ skemmt fyrir fundi hans og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu í síðustu viku. Á sama tíma og Trump og Kim voru að ræða mögulega kjarnafvopnun Norður-Kóreu var Cohen meðal annars að saka Trump um lögbrot, þar sem hann ræddi við þingmenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fulltrúadeildarinnar.

Eftir fund hans og Kim hafði Trump lýst því yfir að hann hefði gengið frá samningaborðinu fyrr en stóð til vegna kröfu Kim um að létt yrði á viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gegn Norður-Kóreu áður en hann léti vopn sín af hendi.

Forsetinn gagnrýnir einnig Demókrata fyrir að hafa haldið nefndarfundinn á sama tíma og hann hafi staðið í mikilvægum viðræðum við Kim. Í tísti í nótt segir Trump einnig að Cohen sé dæmdur „lygari og svindlari“ en Cohen hefur meðal annars verið dæmdur fyrir að ljúga að þingmönnum um viðræður um byggingu Trump-turns í Moskvu og hefur afplánun vegna þriggja ára dóms í næsta mánuði.

Hann var einnig dæmdur fyrir brot á kosningalögum vegna þagnargreiðslu til klámstjörnu sem Cohen segir Trump hafa haldið fram hjá eiginkonu sinni með. Cohen greiddi Stephanie Clifford, eða Stormy Daniels, 130 þúsund dali skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016 svo hún myndi ekki segja sögu sína opinberlega.

Sjá einnig: Varaði þingmenn við að fylgja Trump í blindni



Cohen heldur því fram að Trump hafi endurgreitt honum fyrir þagnargreiðsluna eftir að hann tók við embætti og sýndi hann þingmönnum afrit af ávísun frá forsetanum sem hann sagði að hann hefði fengið sem endurgreiðslu.

Eftirlits- og stjórnskipunarnefndin hafði margsinnis áður reynt að halda vitnaleiðslur yfir Cohen en fresta þurfti fundunum ítrekað og meðal annars var vitnaði í „ógnanir“ sem sneru að Cohen og fjölskyldu hans. Upprunalega átti vitnaleiðslan að fara fram þann 7. febrúar en dagsetning fundar Trump og Kim var opinberuð þann 5. febrúar, samkvæmt Washington Post.



Trump hefur varið miklum tíma frá því hann yfirgaf Víetnam í að kvarta undan þeim fjölmörgu rannsóknum sem að honum snúa og gagnrýna Demókrata fyrir það sem hann kallar „áreitni“.

Það hefur hann bæði ítrekað gert á Twitter og meðal annars í langri ræðu hans á ráðstefnu Repúblikana um helgina þar sem forsetinn fór heldur frjálslega með sannleikann.


Tengdar fréttir

Viðræðum Trump og Kim óvænt slitið

Leiðtogafundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður Kóreu, í Víetnam sem fram fór í morgun varð mun styttri en menn höfðu gert ráð fyrir.

Undirbúa slag um skattskýrslur Trump

Forsvarsmenn Demókrataflokksins hafa stigið varlega til jarðar varðandi skattskýrslurnar og voru nokkur slík skref tekin í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×