Erlent

Trump hafi misskilið kröfur Norður-Kóreu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ri Yong-ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu.
Ri Yong-ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu. Getty/Asahi Shimbun

Norður-kóresk stjórnvöld segja Bandaríkjaforseta hafa farið með rangt mál á blaðamannafundi sínum í Hanoi í Víetnam í gær. Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og sendinefnd hans hafi ekki farið fram á að öllum viðskiptaþvingunum gegn ríki þeirra yrði aflétt, í skiptum fyrir kjarnorkuafvopnun.

Fundi þeirra Kim og Donald Trump Bandaríkjaforseta lauk snögglega og án sameiginlegrar niðurstöðu í gær. Vonir höfðu staðið til að leiðtogarnir myndu undirrita nýtt samkomulag um framtíð kjarnorkuáætlunar Norður-Kóreu og viðskiptaþvingana Bandaríkjanna á stjórnvöld í Pjongjang.

Eftir að viðræðunum var slitið í gærmorgun hélt Trump blaðamannafund. Þar lýsti forsetinn því að viðræðurnar hafi strandað á kröfum Kim, sem Trump sagði hafa farið fram á algjöra afléttingu viðskiptaþvingana gegn Norður-Kóreu í skiptum fyrir að draga töluvert úr kjarnorkuáætlun sinni - en þó ekki að fullu.

Sjá einnig: Gat ekki gengið að kröfum Kim

Utanríkisráðherra Norður-Kóreu segir hins vegar að þetta sé ekki alveg sannleikanum samkvæmt hjá Bandaríkjaforseta. Stjórnvöld í Pjongjang hafi ekki farið fram á að öllum viðskiptaþvingunum yrði aflétt, aðeins hluta þeirra. „Þvingunum sem bitna á þegnum okkar og lífsviðurværi þeirra,“ eins og Ri Yong-ho lýsti því í gærkvöldi.

Þar að auki hafi Norður-Kóreumenn verið reiðubúnir að loka kjarnorkukljúfi sínum í Yongbyon, sem endurræstur var árið 2016. Kljúfurinn er sagður ein af undirstöðum kjarnorkuáætlunar Norður-Kóreu og lokun hans því talið mikilsvert framlag af hálfu Kim og sendinefndar hans. Utanríkisráðherra Norður-Kóreu lýsir því að þetta hafi verið besta tilboð sem stjórnvöld hans gátu boðið Bandaríkjunum, í ljósi þess trausts sem ríkir á milli landanna tveggja.

Aukinheldur segir Ri að Norður-Kóreumenn hafi getað lofað því að hætta tilraunum sínum á langdrægum eldflaugum. Hann bætti við að stjórnvöld í Pjongjang ættu erfitt með að sjá fyrir sér að annað tækifæri eins og Hanoi-viðræðurnar myndi bjóðast aftur.

„Meginkröfur okkar eru ófrávíkjanlegar og tillögur okkar munu ekki breytast, þó svo að Bandaríkin bjóði okkur til annarra viðræðna í framtíðinni,“ segir Ri.


Tengdar fréttir

Viðræðum Trump og Kim óvænt slitið

Leiðtogafundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður Kóreu, í Víetnam sem fram fór í morgun varð mun styttri en menn höfðu gert ráð fyrir.

Gat ekki gengið að kröfum Kim

Forseti og utanríkisráðherra Bandaríkjanna voru sammála um að fundur þeirra með sendinefnd Norður-Kóreu í Hanoi hafi verið góður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.