Erlent

Cohen frestar vitnisburði og ber fyrir sig hótanir Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hefur ítrekað hvatt til þess að tengdafaðir Michael Cohen verði rannsakaður. Cohen er lykilvitni í málum sem varða forsetann.
Trump hefur ítrekað hvatt til þess að tengdafaðir Michael Cohen verði rannsakaður. Cohen er lykilvitni í málum sem varða forsetann. Vísir/EPA
Vitnisburði Michaels Cohen, fyrrverandi lögmanns Donalds Trump Bandaríkjaforseta, fyrir þingnefnd hefur verið frestað að ósk hans. Ber hann fyrir sig hótanir forsetans í garð fjölskyldu sinnar undanfarna daga og vikur.

Cohen hafði samþykkt að koma fyrir eftirlitsnefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings 7. febrúar. Hann var áður persónulegur lögmaður Trump og var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir skattsvik, meinsæri og brot á kosningalögum í desember. Cohen hefur fullyrt að hafa framið glæpi að fyrirskipan Trump sjálfs.

Í yfirlýsingu sem Lanny Davis, lögmaður Cohen, sendi frá sér í dag kemur fram að vitnisburði Cohen hafi verið frestað að ráði lögmanns. Vísar hann til „áframhaldandi hótana“ Trump forseta og Rudy Giuliani, lögmanns hans, gegn fjölskyldu Cohen auk samvinnu hans við yfirvöld.

„Þetta er tími sem herra Cohen verður að setja fjölskyldu sína og öryggi hennar í fyrsta sæti,“ segir í yfirlýsingu Davis.

Virðist lögmaðurinn vísa til nokkurra opinberra yfirlýsinga Trump þar sem forsetinn hefur hvatt til þess að tengdafaðir Cohen verði rannsakaður. Yfirlýsingarnar hafa vakið upp spurningar um hvort að forsetinn sé með þeim að reyna að hafa áhrif á vitni í máli sem varðar hann.

„Fylgist með tengdaföðurnum!“ tísti Trump á föstudag þegar hann sakaði Cohen um að ljúga til að reyna að stytta fangelsisdóm sinn.

Giuliani, lögmaður Trump, varði ummæli Trump um tengdaföðurinn og gaf í skyn að hann hefði tengsl við skipulagða glæpastarfsemi í New York.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×