Erlent

Segja Trump hafa skipað Cohen að ljúga að þingnefnd

Andri Eysteinsson skrifar
Trump er sagður hafa skipað Cohen að ljúga að þingnefnd um viðskipti sín í Rússlandi.
Trump er sagður hafa skipað Cohen að ljúga að þingnefnd um viðskipti sín í Rússlandi. EPA/ Jim Lo Scalzo / Jason Szenes
Bandaríkjaforseti, Donald Trump, er sagður hafa skipað lögmanni sínum, Michael Cohen, að ljúga að Bandaríkjaþingi um viðræður um byggingu Trump-turns í Moskvu. Fréttastofa Buzzfeed greinir frá þessu og vitnar til tveggja ónafngreindra lögreglumanna sem vinna að rannsókn málsins.

Lögfræðingurinn Michael Cohen var í desember síðastliðnum dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar, meðal annars fyrir það að hafa logið að þingnefnd varðandi fyrirætlanir um byggingu Trump-turns í Moskvu í aðdraganda forsetakosninganna 2016.

Cohen fór fyrir viðræðum um bygginguna fyrir hönd Donald Trump sem þá var í miðju forsetaframboði. Á þeim tíma þvertók Trump fyrir það að eiga í viðskiptum á rússneskri grundu. Samkvæmt uppljóstrunum Buzzfeed News greindi Cohen reglulega frá framgangi hans í viðræðunum. Dóttir Bandaríkjaforseta, Ivanka Trump, elsti sonur hans, Donald yngri, og forsetinn sjálfur munu hafa fengið upplýsingarnar frá Cohen.

Cohen játaði í nóvember að hafa logið að þingnefndinni um málið en hann tjáði henni að viðræðum í Rússlandi hefði verið hætt í janúar 2016, nokkrum mánuðum áður en viðræðum var í raun slitið.

Buzzfeed hefur það eftir nafnlausum heimildum sínum að Cohen hafi uppljóstrað því við saksóknara að Trump hafi skipað honum að ljúga með þessum hætti, til þess að tengsl Trump við Rússa á þeim tíma kæmu ekki í ljós. Nú hafa þingmenn Demókrata ákveðið að hefja rannsókn vegna fréttaflutnings Buzzfeed News.

Í frétt CBS um málið kemur fram að einn talsmanna Hvíta Hússins, Hogan Gidley, hafi ekki viljað neita ásökunum á hendur forsetanum með beinum hætti í dag. Gidley sagði það þó furðulegt að taka Buzzfeed trúanlegu og sagði þetta enn eitt dæmið um falsfréttir sem forsetinn þarf að þola.

Trump hefur ekki tjáð sig um málið við fjölmiðla en á Twitter síðu hans vildi hann minna fylgjendur sína á óheiðarleika Cohen sem væri að ljúga til þess að minnka refsinguna sem hann þarf að þola.

Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York og núverandi lögmaður Trump, gaf út yfirlýsingu vegna málsins þar sem hann sagði ásakanirnar vera rangar. Einnig sagði hann í viðtali við Washington Post  að hann gæti boðið hverjum þeim sem trúir Cohen frábært tilboð til kaupa á Brooklyn-brúnni í New York.


Tengdar fréttir

Segir Trump víst hafa skipað sér að brjóta lög

Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, segir Trump víst hafa vitað af því að greiðslur til tveggja kvenna í aðdraganda kosninganna 2016 hafi verið ólöglegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×