Enski boltinn

Andre Gomes gæti spilað aftur fyrir Everton á þessu tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Gomes liggur sárþjáður í grasinu en liðsfélagar hans reyna að hjálpa honum.
Andre Gomes liggur sárþjáður í grasinu en liðsfélagar hans reyna að hjálpa honum. Getty/Robbie Jay Barratt
Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, segir að portúgalski miðjumaðurinn Andre Gomes eigi möguleika á því að spila aftur með liðinu á þessu tímabili.

Andre Gomes ökklabrotnaði illa í leik Everton og Tottenham um síðustu helgi og þær senur voru svo sannarlega ekki fyrir viðkvæma.

Andre Gomes fór í aðgerð en ökklinn fór úr lið. Aðgerðin heppnaðist vel og hann er nú kominn til síns heima.





„Allt gekk mjög vel hjá honum og við vonumst til þess að hann spili aftur á þessu tímabili,“ sagði

Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton.

„Við sáum öll hvað gerðist og þetta leit út fyrir að vera mjög alvarleg meiðsli. Auðvitað getum við ekki verið hundrað prósent örugg með að hann verði klár en þetta lítur vel út í dag,“ sagði Marco Silva.

Son Heung-min, framherji Tottenham, fékk rautt spjald fyrir brotið á Andre Gomes en það rauða spjald var seinna afturkallað eftir áfrýjun frá Tottenham. Son fékk mikla samúð eftir að hafa brotnað niður eftir brotið en knattspyrnustjóri Everton vill minna menn á það hver var fórnarlambið.

„Auðvitað var þetta mun erfiðara fyrir Andre heldur en alla aðra á vellinum. Þetta var langverst fyrir Andre en auðvitað var þetta líka erfitt fyrir þá Son og Aurier,“ sagði Marco Silva.





„Nú snýst þetta um það hjá okkur að átta okkur á aðstæðum og það sem er mikilvægast er að bjóða Andre allan þann stuðning sem hann þarf á að halda.,“ sagði Silva.

„Þetta var samt hörð tækling. Ég var samt sá fyrsti til að tala um það eftir leikinn að Son ætlaði sér ekki að meiða hann,“ sagði Silva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×