Erlent

Sam­þykktu drög að pólitískri vilja­yfir­lýsingu um sam­skiptin eftir Brexit

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ávarpaði fréttamenn við Downing-stræti 10 í hádeginu.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ávarpaði fréttamenn við Downing-stræti 10 í hádeginu. EPA/Andy Rain
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur fagnað drögum að pólitískri viljayfirlýsingu um framtíðarsamskipti Bretlands og Evrópusambandsins sem samkomulag náðist um í morgun.

May segir að yfirlýsingin – sem útlisti í grófum dráttum hvernig viðskiptum, öryggismálum og fleiru skuli háttað eftir útgöngu – sé góð fyrir allt Bretland.

Stjórnvöld í Bretlandi og framkvæmdastjórn ESB höfðu áður samþykkt 585 síðna drög að samningi um hvernig útgöngu Bretlands skuli háttað þann 29. mars næstkomandi. Þar var meðal annars tekið á greiðslum Bretlands til ESB vegna fyrri skuldbindinga, réttindi borgara og málefni landamæra Írlands og Norður-Írlands sem hefur verið einn helsti ásteytingarsteinninn í viðræðunum.

Ávarpar þingheim klukkan 15

Breski forsætisráðherrann mun ávarpa breskan þingheim klukkan 15 í dag þar sem hún mun ræða yfirlýsinguna, en hún hefur þegar kynnt drögin fyrir ríkisstjórn.

Pólitíska viljayfirlýsingin er mun styttri en sjálfur Brexit-saminingurinn, er ekki bindandi og fjallar um hvernig Bretar og ESB sjá fyrir sér samskiptin eftir útgöngu.

Fundaði með Juncker

May fundaði með Jean Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í Brussel í gær og mun hún snúa aftur á laugardag til frekari viðræðna.

Enn er deilt um nokkur atriði í drögunum að sjálfum Brexit-samningnum. Þannig hefur spænski forsætisráðherrann Pedro Sanchez gagnrýnt að ekki sé rætt um framtíð Gíbraltar í samningnum og er talið að frönsk stjórnvöld séu óánægð með orðalag um veiðiréttindi í breskri lögsögu.




Tengdar fréttir

Gengur illa að steypa May

Harðir Brexit-sinnar innan breska Íhaldsflokksins hafa ekki enn náð þeim þröskuldi sem þarf til að lýsa yfir vantrausti á Ther­esu May forsætisráðherra og knýja fram leiðtogakjör.

May reynir nú að reka smiðshöggið á Brexit

Forsætisráðherra Bretlands fór til Brussel í gær til að reyna að klára gerð Brexit-samnings. Staðan er erfið heima fyrir og samflokksmenn forsætisráðherra reynast henni erfiðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×