Enski boltinn

Vertonghen: Martröð að mæta Moura

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Chris Smalling fastur í martröð.
Chris Smalling fastur í martröð. vísir/getty
Jan Vertonghen, varnarmaður Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, segir að stuðningsmenn liðsins megi búast við miklu frá Brassanum Lucasi Moura á þessari leiktíð.

Moura var í miklu stuði á móti Manchester United á mánudagskvöldi þegar að hann skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Spurs á Old Trafford en annað mark hans var geggjað. Hann hljóp þá nánast í gegnum Chris Smalling og kláraði færið sitt vle.

Brassinn var keyptur fyrir 25 milljónir punda frá PSG í janúar en komst varla í liðið hjá Tottenham eftir komuna til Lundúna. Hann er núna búinn að byrja alla þrjá leikina og spila vel.

„Hann leggur mikið á sig, getur skorað og sparkað með hægri og vinstri. Hann er líka svo hraður. Þetta er frábær leikmaður og enn betri manneskja þannig að við erum allir ánægðir fyrir hans hönd,“ segir Vertonghen í viðtali við London Evening Standard.

„Hann missti auðvitað af undirbúningstímabilinu fyrir síðustu leiktíð. Fólk verður að skilja að menn þurfa að vera í góðu standi og skilja hvernig við spilum, sérstaklega framherjarnir sem að þurfa að hlaupa mikið.“

„Við þurfum að mæta Moura á hverjum degi á æfingu. Það er einfaldlega martöð að mæta honum,“ segir Jan Vertonghen.


Tengdar fréttir

Stjórn United styður Mourinho

Stjórn Manchester United stendur á bak við Jose Mourinho og er bjartsýn á framhaldið eftir frammistöðu United í fyrri hálfleik í tapinu gegn Tottenham í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×