Erlent

Google hannar leitarvél með ritskoðun fyrir Kínverja

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Verkefnið er umdeilt innan fyrirtækisins.
Verkefnið er umdeilt innan fyrirtækisins. Vísir/Getty

Google vinnur nú að nýrri leitarvél fyrir kínverskan markað. Samnefnd leitarvél fyrirtækisins er á svarta listanum þar í landi, er sum sé á bak við Netkínamúrinn svokallaða líkt og fjölmargar aðrar síður sem sýna eða veita aðgang að efni sem kínverska ríkisstjórnin telur óæskilegt.

The Intercept greindi frá málinu í gær en miðillinn hefur í fórum sínum lekin skjöl frá stórfyrirtækinu um verkefnin. Innan Google er verkefnið kallað Drekafluga og hefur verið unnið að því síðan síðasta vor. Aukinn þungi var svo settur í verkefnið eftir að framkvæmdastjórinn Sundar Pichai fundaði með kínverskum embættismönnum í desember.

Ekki á að verða hægt að finna neitt sem kínverska ríkisstjórnin vill ekki að almenningur þar í landi fletti upp. Yfirvöld hafa til að mynda bannað vefsíður sem innihalda upplýsingar um andstæðinga stjórnvalda, tjáningarfrelsi og atburðina á Torgi hins himneska friðar 1989. Google mun því setja síu í leitarvél sína svo niðurstöður sem nú þegar eru á bak við Net­kínamúrinn finnist ekki.

Þá mun ekki heldur verða hægt að fletta upp ákveðnum bannorðum. Verði það reynt, samkvæmt skjölunum sem Intercept hefur, munu engar niðurstöður birtast.

Google vildi ekki svara spurningum Intercept um málið en heimildarmaður, sem vildi ekki láta nafns síns getið þar sem þau sem starfa að verkefninu mega ekki ræða við fjölmiðla, sagði samstarfsmenn sína hafa áhyggjur af því að verkefnið stangist á við almenna siðferðiskennd.

Starfsmaðurinn sagðist sjálfur andsnúinn því að stórfyrirtæki ynnu með yfirvöldum að kúgun sem þessari. Ritskoðun Kínverja og aðstoð Google gæti verið slæmt fordæmi fyrir önnur ríki.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.